149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég vil gera tvennt að umtalsefni í dag, annars vegar fagna þeim tillögum sem litu dagsins ljós frá átakshópi í húsnæðismálum sem hæstv. forsætisráðherra skipaði. Margt gott er þar að finna og horfir til betri vegar ef við náum að hrinda því í framkvæmd. Eitt af þeim atriðum er m.a. í samræmi við frumvarp sem ég og nokkrir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðum fram um miðjan nóvember, þ.e. að hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við íbúðarhúsnæði úr 60% upp í 100%. Færð eru rök fyrir því að byggingarkostnaður muni lækka um 3% og að ríkissjóður muni í raun, þegar upp er staðið, ekki verða af neinum tekjum. Hugsanlega aukast tekjur ríkisins með þessu. Ég á von á því að þegar við fáum að mæla fyrir frumvarpinu muni það njóta mjög víðtæks stuðnings og menn muni leggja sig fram um það í þessum sal að greiða því framgang.

Hitt atriðið er að ég er mjög hugsi yfir því hvað þingmenn eiga að gera þegar ríkisstofnanir fara ekki að lögum. Til hvaða úrræða getum við gripið þegar ríkisstofnun eins og Ríkisútvarpið hefur í 13 mánuði ekki farið að lögum sem um það gilda? Þegar ég hef vakið athygli á þessu hér í þessum sal eru ekki margir sem virðast hafa áhyggjur af því að ríkisstofnun sem við þurfum öll að greiða til fari ekki að lögum. Á sama tíma er síðan upplýst að Ríkisútvarpið nýtir sér úrræði, sem voru til þess ætluð að styðja íslenska kvikmyndagerðarmenn með endurgreiðslu á kostnaði við kvikmyndagerð, með því að fá endurgreiddan kostnað við Áramótaskaup eða aðra innlenda dagskrárgerð. (Forseti hringir.) Það er alveg furðulegt að Ríkisútvarpið skuli með þeim hætti misnota tilgang þeirra laga að styrkja innlenda dagskrá og kvikmyndagerð og fara auk þess ekki að lögum sem um stofnunina gilda.