149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

skipulags- og mannvirkjamál á Alþingissvæðinu.

147. mál
[16:57]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Þetta er vissulega eðlileg og sanngjörn gagnrýni, held ég að mér sé óhætt að segja. En ég minni á að frumvarpið er flutt hér óbreytt frá framlagningu þess á 141. löggjafarþingi og tekur mið af því sem mætti kannski kalla meðalhóf og rúmlega það, eins og mál horfðu við á þeim tíma. Einnig tekur það mið af fordæmum annars staðar frá. En það er vissulega rétt sem hv. þingmaður segir að það sem hefur gerst í millitíðinni er kannski ekki til þess fallið að auka trú manns á að fulltrúar borgarinnar séu reiðubúnir — það fer að sjálfsögðu eftir því hvernig þeir veljast, en það er ekki alveg víst að ef þeir yrðu pólitískir væri það til þess fallið að greiða fyrir því að hlutirnir færðust til betri vegar.

Ég ætla svo að gagnrýna sjálfan mig í leiðinni og frumvarpið út frá ábendingu hv. þingmanns með því að benda á að fulltrúar þingsins eru í raun í minni hluta í skipulagsnefnd Alþingis samkvæmt þessari tillögu, enda er oddamaðurinn, ef svo má segja, fimmti fulltrúinn, skipaður af ráðherra án tilnefningar. Það má alveg velta því fyrir sér hvort þróunin á undanförnum árum gefi okkur tilefni til að endurskoða þessi ákvæði. Ég er að minnsta kosti mjög opinn fyrir því í umræðu um þetta mál hér í þingsal og í vinnu í nefndinni í framhaldinu að menn meti hvort ástæða sé til að gera þetta með öðrum hætti. En svona var tillagan lögð fram á sínum tíma og hefði eflaust á þeim tíma þótt ganga nógu langt. En þróunin síðan er til þess fallin að vekja með manni ákveðinn ugg, vissulega.