149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

233. mál
[18:57]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var að klambra saman drögum að mjög svipuðu frumvarpi þegar mér barst einmitt meðflutningsbeiðni að þessu. Ég tók því fagnandi. Á því sparaði ég mér smávinnu og er mjög ánægður með það.

Síðan þá hef ég klórað mér aðeins í hausnum og skoðað hvernig allt þetta kerfi virkar og í stærra samhengi. Það er alveg rétt sem hv. flutningsmaður bendir á, í raun er gert ráð fyrir því í núverandi lífeyriskerfi að fólk eigi fasteign. Þannig eru bara tekjurnar sem maður fær þegar maður fer á lífeyri, ef viðkomandi er ekki í skuldlausu húsnæði duga lífeyristekjurnar alls ekki.

Þetta er tvímælalaust tillaga til að hjálpa til við að komast þangað. Það er mjög eðlilegt að fasteign sé hluti af lífeyriskerfinu sem slíku. Ég sé í raun engan mun á því að setja þarna í séreignarsparnað fyrir lífeyri eða setja í fasteignirnar því að hvort tveggja er hluti af lífeyriskerfinu þegar allt kemur til alls.

Mig langaði til að velta upp hugmyndum sem hafa kannski sprottið upp síðan frumvarpið var lagt fram og gætu hjálpað nefndinni að vinna aðeins úr þessu frumvarpi. Ég fékk t.d. ábendingu um að ef það væru fleiri en tveir sem keyptu íbúð, þá ekki með svona 50:50 hlutfalli eins og er gert ráð fyrir í lögunum, eigi þeir ekki rétt á því að fá þetta úrræði. Ef þrír kaupa íbúðina, hver með þriðjungshlutfall, þá bara: Nei, því miður. Þú getur ekki nýtt þetta úrræði. Kannski ábending — skoðun flutningsmanns á slíkri hugmynd — um rýmkun á þessu til þess einmitt að ná til þeirra sem eru þeim (Forseti hringir.) mun tekjulægri þá, og þá ábending til nefndarinnar í framhaldinu.