149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

233. mál
[18:59]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er áhugaverð spurning hjá hv. þingmanni. Ég held að almennt eigi ríkið ekkert að vera með mikla forskrift á því hvernig einstaklingar nýti úrræðið eða hvernig fólk kjósi að búa eða eiga fasteignir saman. Úrræðið er auðvitað hugsað sem úrræði til kaupa á fasteign þar sem gert er ráð fyrir að viðkomandi eigi lögheimili og búi. Ef fjórir vinir kjósa að eiga íbúð saman, 25%, hver, ættu þeir að sjálfsögðu að geta nýtt úrræði sem þetta til slíkra kaupa. Það getur verið allt eins skynsamlegt að kaupa fasteign saman, nái menn að leysa úr öllum þeim mögulegu ágreiningsefnum sem kynnu að koma upp við slíkt, en ekkert sem ríkið á í sjálfu sér að vera að skipta sér af, eða við fjölbreytt fjölskyldumynstur og breytt fjölskyldumynstur nútímans. Það er bara sjálfsagt að nefndin skoði þetta.

Ég held að þessu hafi verið breytt þannig að núverandi ákvæði miðist við 30% eignarhlut, ef ég man rétt. En það er sjálfsagt að menn skoði aukinn sveigjanleika í þessu.