149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[11:47]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski allt í lagi að taka fram af þessu tilefni að á grundvelli EFTA-nefndarinnar höfum við nýlega tekið upp tillögu frá hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson, um að reyna að stuðla að bættu kynjajafnrétti í gerð fríverslunarsamninga af okkar hálfu, og ég hef einnig verið að reyna að þrýsta á að við tökum þetta upplýsingafrelsi, þetta gagnkvæma upplýsingafrelsi, milli samningsaðila upp sem nokkurs konar viðmið, alla vega í samningaumleitan. Það er því ýmislegt að gerast á grundvelli þingmannanefndar EFTA sem ég vona að berist til ráðherranna og þaðan út í fríverslunarsamningana. Við getum kannski smám saman þokast í þá átt að vera með aðeins drýgri verkfæri til þess að hlúa að mannréttindum í okkar viðskiptum.

Það hvort við getum farið alla leið og verið með einhvern stóran vönd þó svo að við tölum mjúklega og fyrir vikið verið með betri skotfæri þegar við eigum þessi samtöl, vissulega erfið samtöl við ríki sem hafa verið að brjóta gegn mannréttindum, þá held ég að það gerist ekki á einni nóttu. Fyrir vikið er ég, eins og ég segi, ekki beinlínis búinn að taka afstöðu til þessa samnings hér, og ekki heldur annarra samninga sem hafa komið fyrir þingið og munu gera það áfram, að öðru leyti en því að þetta jafnvægi milli mannréttinda og viðskiptafrelsis verður að vera til staðar, verður að vera virkt af hálfu allra aðildarríkja samninga. Það verður að vera einhvers konar verkfæri til staðar fyrir hæstv. ráðherra og aðra sem eiga þar samtölin til að tryggja að stórfelld mannréttindabrot verði ekki viðtekin venja í þegjandi þökk okkar.