149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda.

136. mál
[14:22]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda. Hv. þingmaður og 1. flutningsmaður, Jón Gunnarsson, fór ágætlega yfir efni og tilgang frumvarpsins í framsögu sinni. Markmiðið er að styðja við mannvirkjagerð og aðrar framkvæmdir félagasamtaka til almannaheilla og vera þannig hvetjandi þáttur til eflingar á þeirri starfsemi sem um ræðir og möguleika þeirra á að bæta aðstöðu sína og viðhalda þeim mannvirkjum sem fyrir eru.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur glöggt fram að þetta er vilji þingsins. Fór hv. þm. Óli Björn Kárason jafnframt vel yfir þann vilja sem er í þinginu til þess að efla almannaheillastarf, ekki síst þar sem það hvílir að stórum hluta á sjálfboðaliðastarfi. Í greinargerð með frumvarpinu er dregið fram að mál þessa efnis hefur verið lagt ítrekað fyrir þingið. Það var lagt fyrir á síðasta þingi og er endurflutt nú.

Hv. atvinnuveganefnd lagði fram viðlíka mál á 145. löggjafarþingi. Málið hefur tekið einhverjum breytingum frá þeim tíma, aðallega er varðar umbúnað og framkvæmd sem snýr að sveitarfélögunum, og kemur fram í 4. gr. að fyrir skuli liggja skrifleg staðfesting sveitarfélags um að viðkomandi framkvæmd falli ekki undir lögbundnar skyldur sveitarfélaga.

Inntakið í frumvarpinu er alveg það sama og markmiðið það sama þó að það hafi ekki náð fram að ganga í hin skiptin, eins og glögglega kom fram í máli hv. framsögumanns. Eins og fram kemur í greinargerð falla flest félög sem starfa að almannaheillum undir gildissviðið og er farið ágætlega yfir það, eins og björgunarsveitirnar og íþróttafélögin. Þau eru utan virðisaukaskattskerfisins, að stórum hluta undanþegin að meginstarfsemi, og eiga því ekki möguleika á að færa innskatt á móti útskatti eða fá endurgreiðslu innskatts vegna mannvirkjagerðar.

Ég get rakið þetta mál enn lengra aftur, en ég hef í þrígang flutt mál af sama meiði með þrengra gildissviði sem beinst hefur að íþrótta- og æskulýðsfélögum í þeim sama tilgangi. Markmiðið sem snýr að íþróttunum er auðvitað forvarnaþátturinn, að efla forvarnir. Hv. þm. Óli Björn Kárason vitnaði í ræðu sinni til orða dósents við Háskóla Íslands, Viðars Halldórssonar. Hann hefur ítrekað bent á mikilvægi skipulagðrar íþrótta- og æskulýðsstarfsemi í tengslum við forvarnir og forvarnagildi hennar. Það er auðvitað mjög mikilvægur liður í því máli sem við ræðum hér.

Í tillögunni, sem ég lagði upphaflega fram á þingi árið 2013 í formi þingsályktunartillögu, sem lögð var fram af stjórnarflokkunum sem þá voru, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, var lagt til að fela hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að taka til endurskoðunar virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar og leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á þeim lögum. Það var tvíþætt, að íþrótta- og ungmennafélög yrðu undanþegin virðisaukaskatti af starfsemi sinni að öllu leyti, en það sem snýr að samkeppni felur í sér ákveðið flækjustig þegar kemur að fjáröflun, sem er mjög mikilvæg íþróttafélögum. Það verður að viðurkennast að í umfjöllun hv. efnahags- og viðskiptanefndar kom glögglega fram að það er snúið í raun og framkvæmd. En tilgangurinn er auðvitað sá sami, að efla og virða allt það góða sjálfboðaliðastarf sem starf íþróttafélaganna á Íslandi hvílir á.

Seinni liður tillögunnar sneri að þeim þætti sem við ræðum hér, því frumvarpi sem er á dagskrá, að íþrótta- og ungmennafélög hafi heimild til að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af byggingu íþróttamannvirkja á íþróttasvæðum sínum, vinnulaunum og efniskaupum.

Árið 2013 var rætt um þennan þátt í nafni forvarna og uppbyggingar og umgjörð þess mikilvæga félagslega hlutverks sem felst í starfsemi barna og unglinga. Í umfjöllun um málið var kallað eftir útvíkkun á því vegna þess að komið er inn á mikilvægt barna- og unglingastarf, uppeldisstarf og forvarnagildi í starfsemi skátanna, í starfsemi KFUM&K og fleiri æskulýðsfélaga. Jafnframt var umsögn frá samtökum Almannaheilla um allt það óeigingjarna starf sem fer fram og hefur samfélagslega ótvírætt gildi.

Þingsályktunartillagan náði ekki fram að ganga þannig að málið var endurflutt af sömu flutningsmönnum og flokkum í formi lagafrumvarps sem fól í sér tvær lagagreinar þessa efnis, annars vegar um undanþáguna og hins vegar um endurgreiðslu til mannvirkjagerðar, endurgreiðslu virðisaukaskatts. En markmiðið og tilgangurinn, forvarnastarfið, er það sama, til eflingar barna-, unglinga- og æskulýðsstarfi. Málið hlaut þegar jákvæðar undirtektir og augljóslega einnig frá íþróttahreyfingunni og ungmennafélögum víðs vegar um landið og samtökum þessara aðila. Alls bárust 17 umsagnir um málið á þeim tíma. Eðlileg gagnrýni kom fram frá Viðskiptaráði, ríkisskattstjóra og Samtökum atvinnulífsins um áherslu á einföldun virðisaukaskattskerfisins sem tekjuöflunarkerfis. Það færi gegn þeim markmiðum þar sem kerfið ætti að vera, eins og almennt gildir, einfalt, gagnsætt og almennt. Þá var jafnframt vísað til stjórnarsáttmála þess tíma þar sem lögð var mikil áhersla á að fara í vinnu til að efla skattkerfið og einfalda til að auka skilvirkni þess.

Það á alltaf við. Sem formaður hv. fjárlaganefndar get ég auðvitað ekki annað en virt þau sjónarmið sem eru fullgild og eiga alltaf við. En það má vega og meta mögulegar færar leiðir og markmiðin þegar þau stangast á. Það er óhjákvæmilegt. Þegar kemur að almannaheillastarfi er þetta mál ekki flokkspólitískt í eðli sínu. Það eru allir sammála um það gildi sem félagsstarf til almannaheilla hefur og er fullur vilji til að efla og styðja við það, eins og markmiðið er með því frumvarpi sem við ræðum hér, um að efla barna-, unglinga- og æskulýðsstarf í forvarnaskyni. Það er mjög mikilvægt og óumdeilt og snýr að mörgum þáttum. Þegar við metum samfélagslegan ábata getur það skilað umtalsvert meiri sparnaði en það að kljást við aukið flækjustig í skattkerfinu. Auk þess má tryggja með umbúnaði laga að flækjustig aukist ekki eða reyna að koma í veg fyrir að það þurfi að gerast. Að flækja kerfið kostar einhverja vinnu og samantekt á gögnum og utanumhaldi, en við eigum að geta haft umbúnaðinn þannig. Það verður verkefni hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Hv. þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Óli Björn Kárason, fór ágætlega yfir það áðan og er mikilvægt að nefndin fari yfir það í faglegri umfjöllun og skoði allar tillögur og leiðir og athugasemdir sem koma munu við málið sem snýr að þessum þætti.

Auðvitað er óhjákvæmilegt að það gangi á tekjurnar þegar verið er að endurgreiða virðisaukaskatt, en við verðum að vega og meta ábatann á móti. Ábatinn og forvarnagildið í skipulögðu barna-, unglinga- og æskulýðsstarfi verður örugglega seint metið hreinlega til fjár. Um það er hins vegar ekki deilt, og það staðfesta fjölmargar rannsóknir, að það dregur verulega úr líkum á hvers kyns frávikshegðun.

Þeim þætti sem snýr að íþróttastarfi, sem ég tel mjög mikilvægt markmið í þessu samhengi, eru gerð skil í greinargerð með málinu í þrígang á fyrri stigum þegar málið var lagt fram. Þar kemur til að mynda fram að ungmenni sem ekki taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi eru líklegri til að nota vímuefni en þau sem eru virkir þátttakendur í skipulögðu starfi á vettvangi félagasamtaka. Það hefur mikið verið rannsakað í íþróttunum. Þar kemur m.a. fram að þegar börn og unglingar taka þátt í skipulögðu starfi, og það er mjög mikilvægt að starfið sé skipulagt, hefur sú þátttaka jákvæð áhrif á námsárangur, sjálfsmynd, sjálfsvirðingu, líkamsmynd, heilsu og almenna líðan. Því er um félagslegan og beinan heilsuábata að ræða og til framtíðar er væntanlega minna álag á heilbrigðiskerfið en ella þar sem þessar rannsóknir sýna jafnframt að aukin hreyfing dregur úr tilfellum alvarlegra sjúkdóma, leiðir til færri tapaðra vinnustunda fyrir vinnumarkaðinn, færri veikindadaga og þar með aukinnar framleiðni. Það er auðvitað mikilvægt að við horfum til þessa ávinnings. Hvort hægt er að meta hann alfarið í krónum er mögulega erfiðara, en á sama tíma vinnum við að því að hafa umbúnaðinn þannig að hann flæki ekki virðisaukaskattskerfið.

Eins verð ég að nefna, virðulegi forseti, að virkilega jákvæð þróun hefur orðið á liðnum áratugum á þátttöku foreldra í starfi barna og unglinga. Hún hefur aukist til muna á vettvangi íþróttanna og er það mjög jákvæð þróun. Það er mjög mikilvægt þegar kemur að möguleikum foreldra og tíma sem þeir verja með börnum sínum sem enn og aftur hefur gríðarlega þýðingu þegar kemur að heilbrigðu uppeldi barna og unglinga. Fjölmargar rannsóknir staðfesta að samvera foreldra með börnum og unglingum er ekki síst mikilvæg í því efni.

Ég segi því að við eigum að horfa til þess í allri mannvirkjagerð hvernig við hönnum mannvirkin, hvernig við hugsum þau sem félagsmiðstöðvar fyrir skipulagt starf og samveru, félagslegan vettvang og samveru foreldra, barna og unglinga.

Eins og ég kom að hlaut þetta mál mjög jákvæðar undirtektir. Af umsögnum Almannaheilla, samtaka þriðja geirans, er ljóst að þau vilja að gildissvið tillögunnar verði víkkað, að það verði ekki einangrað við íþróttirnar heldur nái til allra félagasamtaka, eins og lagt er til með því frumvarpi sem við ræðum hér. Þá leiðir maður hugann að því að það hefur lengi verið í deiglunni að klára almenna löggjöf um almannaheillageirann, þriðja geirann.

Í þriðja sinn sem við flutningsmenn lögðum fram þetta mál gagnvart íþróttahreyfingunni fékk það reyndar framgang. Eftir umfjöllun í hv. efnahags- og viðskiptanefnd var nefndarálit allra hv. þingmanna sem sæti áttu í nefndinni samþykkt með frávísunartillögu, eins og það heitir, þar sem nefndin lagði til að vísa málinu til hæstv. ríkisstjórnar, sem þá samanstóð af tveimur flokkum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.

Ég ætla að vísa í nefndarálitið, með leyfi forseta. Þar kemur eftirfarandi fram:

„Síðustu ár hefur verið unnið að endurskoðun á reglum um virðisaukaskatt og vörugjöld í því skyni að einfalda og bæta skilvirkni kerfisins. Fjármála- og efnahagsráðherra skipaði stýrihóp í því skyni. Nefndin leggur til að þessar tillögur verði teknar til skoðunar hjá stýrihópnum …“

Í sjálfu sér hafa ekki orðið nein upplýst afdrif málsins frá þeim tíma.

Ég vona að málið fái faglega (Forseti hringir.) umfjöllun í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, sem ég er svo sem ekkert í vafa um. Ég læt máli mínu lokið, virðulegi forseti.