149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda.

136. mál
[14:37]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir ágæta ræðu og yfirferð. Mér finnst líka rétt að halda því til haga í þessari umræðu að þáttur hv. þm. Willums Þórs í þessu máli er mjög mikill. Í raun má eiginlega kenna honum um þetta allt saman. Upphafið liggur hjá honum og ég vildi bara fá að þakka honum hans hlut. Ég vona að við förum að sjá einhvern ávöxt af nokkuð löngu ferli sem þetta hefur verið í.

Ég vil hins vegar aðeins eiga orðastað við hv. þingmann. Eins og ég sagði í ræðu áðan er sú hugmyndafræði sem lögð er fram í þessu frumvarpi auðvitað ekkert eina rétta leiðin. Ég hygg að við getum verið sammála um það, ég og hv. þingmaður. Menn hafa kannski bent á hvort það sé ekki betri fyrirmynd að innleiða einhvers konar ívilnunarkerfi með sama hætti og viðgengst við kvikmyndagerð. Það væri ágætt að heyra sjónarmið hv. þingmanns á því, ég er viss um að það verður eitt af því sem örugglega kemur til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég vil líka ítreka að ég er ekki tilbúinn til að skrifa undir það að ívilnanir af þessu tagi þýði endilega að ríkissjóður verði af mjög miklum tekjum. Það kunna einmitt að verða tekjutækifæri fyrir ríkissjóð vegna þess að ráðist verði í verkefni, ráðist í framkvæmdir, (Forseti hringir.) sem annars yrði ekki ráðist í. Og ríkið og ríkissjóður hefur tekjur af öðrum þætti, t.d. af launum og tryggingagjöldum.