149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda.

136. mál
[15:09]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit eiginlega ekki hvort ég get kallað þetta andsvar en ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir ræðu hennar og stuðning við málið og ætla að taka undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að við fáum gagnrýnar umsagnir um málið þegar kemur að skattalega hlutanum. Ég vil jafnframt draga það fram, af því að ég fór yfir það í ræðu minni að málið hefði áður verið lagt fram með þrengra gildissviði, að ríkisskattstjóri hefur sent inn umsögn. Þá sneri málið reyndar jafnframt að því að efla sjálfboðaliðastarf í landinu og undanþágur frá virðisauka sem íþróttafélög fá að stærstum hluta. Fjáröflun sjálfboðaliða og foreldra í kringum íþróttamót, þegar við tökum alla flokka og allar deildir, hleypur orðið á hærri fjárhæðum en hámarksfjárhæðin segir til um. Þá þarf að fara að skrá virðisaukaskattsnúmer og skila skýrslum. Það er kannski ekki endilega það sem foreldrarnir eru búnir undir þegar þeir eru að reyna að fjármagna starfsemina og ferðirnar og allt það sem fylgir.

Mig rekur minni til þess að ríkisskattstjóri hafi skilað umsögnum um þetta mál og Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð bentu á þessa agnúa gagnvart skattkerfinu. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að við fáum slíkar umsagnir við málið þegar við erum að finna leiðina.