149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

kosningar til sveitarstjórna.

356. mál
[16:02]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni hugleiðingar hans, þær voru góðar. Ég þakka einnig hlý orð í minn garð. Við höfum öll sem að þessu höfum staðið unnið ágætlega — ég er svo vanur því að ágætt sé betra en gott úr minni skólagöngu — undir forystu hv. formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég sé ekki annað en að við eigum að geta unnið hratt og vel að þessu máli.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni hvað varðar mikilvægi þess að líta til aldurssamsetningar þjóðarinnar. Svo að ég leyfi mér nú aðeins að fara út fyrir nákvæmlega þetta mál gerðu í síðustu viku lýðfræðilegar breytingar í Bretlandi það að verkum að ef atkvæði eftir aldursflokkum hefðu fallið þá eins og þau féllu í Brexit-kosningunni var orðinn meiri hluti gegn Brexit. Að sjálfsögðu er þetta ákveðin hugarleikfimi, maður gefur sér að allir kjósi eins og í kosningunum og allir aldursflokkar kjósi eins, en þetta var einfaldlega vegna þess að ungu fólki, sem er með kosningarrétt, hafði fjölgað svo mikið á þessum dögum sem frá voru liðnir. Það er kannski eitt dæmi um það að ekki er hlustað á raddir unga fólksins, þess fólks sem þarf að búa lengst við þær ákvarðanir sem eru teknar en fær kannski ekki aðkomu að þeirri ákvarðanatöku.

Ég lýsi mig hjartanlega sammála góðum hugleiðingum hv. þingmanns.