149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

búvörulög.

295. mál
[16:52]
Horfa

Elvar Eyvindsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Þorsteinn Víglundsson talar um samkeppnina og hag bænda og neytenda. Ég held að við séum sammála um að allra hag viljum við sem bestan. Hv. þingmaður vitnar mjög í mjólkuriðnaðinn í máli sínu en ég má til með að minna hann á hvernig kerfið er uppbyggt. Verðlaginu þar er stjórnað af opinberri nefnd, líklega allt að hálfu leyti eða meira, sem þýðir að sumar vörur eins og smjör eru framleiddar og seldar undir kostnaðarverði. Það þýðir að ekki er um annað að ræða en að ná því annars staðar inn. Þetta gerir stöðu mjólkuriðnaðarins afskaplega veika gagnvart innflutningi. Ég hef hvergi séð að einhverjum detti í hug að flytja inn nýmjólk eða smjör af því að þar er náttúrlega ekki nein framlegðarvon, framlegðarvonin er hinum megin þar sem fyrirtækið hefur frelsi um verðlagningu. Ég held að það sé eitthvað sem hv. þingmaður ætti að hjálpa til við að laga og leysa. Ég get ekki séð að það geti gengið þegar innflutningur og samkeppni er vaxandi.

Ég fór á netið að gamni mínu áðan, einhverja netverslun, og sá að hægt var að kaupa nýmjólkurlítrann á 154 kr. og blávatn í tveggja lítra flösku á 279 kr. Þar er engin afurðastöð og allt frjálst. Þetta er blávatn sem við getum fengið úr öllum krönum selt á 140 kr. lítrann. Lítrinn var sem sagt 14 kr. ódýrari í tveggja lítra flöskunni. Svo var önnur tegund, 1,5 lítrar, á 329 kr., eða 219 kr. lítrinn. (Forseti hringir.) Það er því ekki hægt að sanna að samkeppni í vatninu leiði til lágs vöruverðs.