149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

búvörulög.

295. mál
[17:37]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Virðulegur forseti. Þetta mál stendur hjarta okkar Miðflokksmanna mjög nærri og við erum hlynntir því. En það eru ýmis atriði sem snerta frumvarpið sem mér finnst nauðsynlegt að komi fram, þar á meðal s' það hversu óburðugar afurðastöðvarnar eru núna er væntanlega vegna þess að sú skerðing á kjörum bænda sem orðið hefur á síðustu 30 mánuðum eða svo hefur ekki skilað sér til neytenda. Hún hefur sem sagt horfið til afurðastöðvanna.

Ég verð líka að segja að ef svona aðgerð verður framkvæmd kallar hún á mjög virkt eftirlit með sameinuðum afurðastöðvum. Ég vil í því tilfelli líka láta þess getið að núna í haust lagði ég fram fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um birgðastöðu í sauðfjárafurðum tvö næstliðin ár, þ.e. í fyrra og árið þar áður, þegar verð til bænda var skert um 29% ef ég man rétt.

Upplýsingar sem ég hafði innan úr geiranum voru þær að meint kjötfjall, sem var undirstaða þess að afurðastöðvarnar lækkuðu verð svo skarpt til bænda, hafi samanstaðið að mestu af innmat, slögum, sviðum og slíkum afurðum. Þetta er ekki hægt að fá fram vegna þess að skráning birgða hjá afurðastöðvunum er alls ekki skýr. Það kom fram í svari landbúnaðarráðherra í haust til þess er hér stendur. Það var t.d. ekki hægt að skipta upp birgðum í ákveðnum skrokkhlutum eða hvar þessi meinti birgðavandi lá, eins og maður segir. Aðgerðir sem voru gerðar í framhaldi af þessari skörpu lækkun til bænda urðu til þess að ásetning fjár var minni, framleiðsla dróst saman. Nýjustu fréttir í blöðunum um daginn benda til þess að þeir sem vilja borða kótelettur og hrygg í allt sumar verði að hamstra það núna vegna þess að birgðastaða í sauðfé segir okkur að á sumarmánuðum verði skortur á hryggjum í landinu, vegna þess að búið að skera of skarpt niður og vegna þess, að áliti þess sem hér stendur, að markaðssetningin á þeim skrokkhlutum sem eru seinni í sölu en t.d. sykur er ekki upp á marga fiska, því miður.

Það helgast hugsanlega af því að afurðastöðvarnar eru vanbúnar. Þær eru ekki fjársterkar, nema síður sé. Kannski vantar þær slagkraft til að geta stundað markaðssetningu.

Það er líka annað sem ég vil láta getið út frá hagsmunum neytenda og það er að samþjöppun eins og þessi hlýtur að gera þær kröfur að upprunamerking verði miklu betri en nú er. Það er einu sinni svo, með undantekningu í litlum framleiðanda, eins og Fjallalambi, sem er farinn að upprunamerkja hluta af sinni framleiðslu, að fyrir þá sem t.d. aðhyllast að kaupa, eigum við að segja fé af Ströndum, er ekki nokkur vegur að komast að því í verslunum hvaðan lambakjötið er sem þeir kaupa. Eftir minni eru 28 gæðaflokkar í lambakjöti, eftir holdfyllingu, fituinnihaldi o.s.frv. En kóteletturnar úti í búð og lærissneiðarnar eru allar eins. Við kaupum þær á sama verði, alveg sama í hvaða flokki viðkomandi gripur hefur lent í sláturhúsi. Neytendur borga sama verð, sama hvað.

Þetta er ekki það sem við viljum sjá. Við viljum sjá að neytendur hafi val. Við viljum sjá að þeir hafi val um að kaupa af ákveðnum svæðum, ef þeim hugnast það, að kaupa kjöt af ákveðinni gerð, ef þeim hugnast það. Ég vil nefna dæmi. Af mjög ónákvæmri könnun sem undirritaður hefur gert í verslunum í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu að dæma virðist vera gríðarlega erfitt að fá keypt t.d. stór lambalæri. Þau eru flestöll mjög rýr, lítil og létt sem þýðir að beinaprósentan er hærri fyrir vikið. Sá sem kaupir er að kaupa meira beinhlutfall en kjöthlutfall, ef hann ekki fær það sem hann leitar að.

Það eru ýmis svona gæðamál sem verða líka að fylgja ef slíku máli eins og hér um ræðir yrði veittur framgangur.

Það er hins vegar athyglisvert þegar menn tala um samkeppnisbrest sem ætti að verða út af þessu. Það vill nú þannig til að smásölumarkaðurinn á Íslandi, sérstaklega í matvöru, er samansúrraður, bæði í eignarhaldi og markaðshlutdeild. Við erum með eitt fyrirtæki upp á 60%. Við erum með þrjú sem eru samtals með líklega 88% en þau eru öllsömul í eigu sömu aðila að meiri hluta til eða ráðandi hluta til í eigu sömu lífeyrissjóðanna. Virk samkeppni er ekki þarna. Frekar er hægt að tala um að það sé þegjandi verðsamráð, eins og það er kallað. Það sjáum við m.a. í verðkönnunum sem gerðar eru. Í þeim verslunum sem eru í hvað mestri „samkeppni“ munar allt að sömu krónunni á þeim vörum sem eru líklegar til að lenda í úrtaki í verðlagskönnunum.

Hvað þurfti til, bæði til að breyta vöruframboði, t.d. í lambakjöti, og breyta verði á ýmsum vörutegundum? Hvað þurfti til? Jú, það þurfti að flytja inn kaupmann. Ég hef reyndar lengi verið talsmaður þess að við flytjum inn kaupmenn. Reynslan af þessum eina stóra sem við fluttum inn í fyrra, eða nam hér land í fyrra, er því miður vonbrigði að mörgu leyti. Vöruframboðið þar er ónógt. Í raun og veru ættum við neytendur að óska þess að hingað rötuðu alvörukeðjur eins og Lidl í Þýskalandi eða einhverjar slíkar, Føtex og Salling-grúppan í Danmörku. Við ættum að fá hingað alvöruverslunarkeðjur sem eru með alvörusamkeppni og myndu veita alvörusamkeppni inn á þennan markað. Það skiptir ekki máli hvort um er að ræða landbúnaðarvörur eða einhverjar aðrar vörur, við myndum virkilega finna fyrir þessu í buddunni ef slík samkeppni yrði virk.

Hitt er svo annað mál, eins og hér hefur aðeins komið fram, að þessi undanþága mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum sem innifelur þá líka opinbera verðstýringu og það vita menn sem hafa t.d. talað mjög um að — ég er ekki hérna til þess að bögga Mjólkursamsöluna, afsakið, forseti, en ljóst er að samkvæmt skýrslum sem gefnar hafa verið út hefur verið verulegur hagur af því, bæði fyrir neytendur og bændur, að hafa hér eitt stórt afurðafyrirtæki. Ég held að enginn hafi orðað þetta einfaldar, skýrar og skarpar en fyrrverandi hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem sagði að einfaldlega væri þetta þannig að þessi gjörð, þegar mjólkuriðnaðurinn var undanþeginn þessum lögum, hafi skilað 3 milljarða ábata á hverju ári, þar sem bændur fengu 1 og neytendur fengu 2. Þetta er kannski það módel sem við erum að horfa á að gæti orðið ef þetta frumvarp yrði að lögum.

Það er akkillesarhæll, tel ég, fyrir alla framleiðslu okkar núna hvað við erum léleg að upprunamerkja. Ég er alveg sannfærður um að við gætum líka náð betri árangri á erlendum mörkuðum ef við værum með alvöruupprunamerkingu. Að vísu tel ég persónulega að það eigi að verðlauna þá menn sem geta ekki selt íslenskt lambakjöt sem gæðavöru. Ég held að það þurfi alveg sérstaka hæfileika til að geta ekki selt þessa vöru við góðu verði. En það er reyndar kannski prívatskoðun.

Svo margt hefur maður heyrt og reynt í gegnum tíðina. Þeir sem sækja Ísland heim og neyta lambakjöts og kaupa það erlendis ljúka allir upp einum rómi um að þetta kjöt sé einstaklega bragðgott og af miklum gæðum. Þess vegna er ótrúlegt að við seljum það á útsölu meginpartinn af árinu, á kostnað bænda, að meiri hluta til. Ég held að það væri mjög fróðlegt fyrir okkur neytendur að fá bara mynd af lambalæri í Mogganum eða í einhverju blaði, A-4 á heilsíðu, sem er nú reyndar stærri en A-4, þar sem lambalærinu yrði skipt eftir því hvað hver fær í sinn hlut. Hvað fær ríkið í virðisaukaskatt? Hvað fær verslunin í alvöru? Hvað fær afurðastöðin og hvað fær bóndinn? Ég held að þetta gæti verið mjög upplýsandi fyrir okkur neytendur, þ.e. um verðmyndun á þessari vöru. Við erum í raun og veru algjörlega í myrkri um það hvernig verðlagningin er og hvernig verðmyndunin er.

Við sjáum það, ég man ekki hvað bóndinn fær á kíló núna fyrir lambakjöt. Ég man ekki hvort það er … (Gripið fram í: 387 kr.) 387 kr. Kílóið af lambafilet kostar sirka 5.200 kr., reyndar besti bitinn, beinlaus. En ég held að það væri líka fróðlegt, og ég skil reyndar ekki í Bændasamtökunum að gera það ekki, að taka bara einn skrokk og skipta honum svona sirka, hægt væri að skipta honum á fjóra vegu. Alltaf fær bóndinn þessar 387 kr. En hvað verður úr? Hvert er fullnaðarverðið á einum lambsskrokk þegar búið er annaðhvort að úrbeina hann eða gera úr honum kótelettur, lærissneiðar eða hangikjöt eða hvað sem er?

Ég held að við þurfum að fanga þennan virðisauka. Líka vegna þess að við erum að hugsa um að þessi virðisauki skili sér áfram til neytenda, virðisauki sem yrði þá til hjá sterkari afurðastöð. Það er það sem við erum að hugsa um. Og að sjálfsögðu þarf hann að skila sér til bænda.

Þess vegna segi ég að það er dálítið önugt núna að hugsa til þess að kollsteypurmar sem við erum að taka, samanber samdráttinn eftir þessa skörpu verðlækkun til bænda í hittiðfyrra, eru að búa til kjötskort í sumar, tveimur árum seinna. Menn verða að átta sig á því að menn framleiða ekki lambakjöt á einni viku. Það tekur dálítið lengri tíma. Til þess að bregðast við verða menn að gera alvöruspálíkön, horfa tvö ár fram í tímann, um hvernig vænta má að markaðurinn hagi sér. Það er kannski þetta sem hefur skort. Þetta bitnar alveg klárlega núna bæði á afurðastöðvum og bændum og mun gera það, t.d. á þessu ári, alveg örugglega. Það er því ýmislegt sem fylgir frumvarpinu sem menn þurfa að horfa dálítið skarpt á ef menn ætla að ná fram þeim góðu markmiðum sem eru í frumvarpinu.

Auðvitað eiga neytendur og framleiðendur að vera vinir, félagar og samherjar og eru það í langflestum tilfellum. Það hefur stundum tekist vel til og stundum ekki eins. Þeir sem tala mest um að það vanti samkeppni í landbúnaði hafa oft talað um tollalækkun á grænmeti sem góðan hlut sem hafi skilað sér vel. Jú, það gerði það vissulega, en hann einfaldaði líka mörgum lífið vegna þess að nú er það í grunninn þannig að bændur framleiða gúrkur, tómata og papriku og eru, eins og maður segir, bara á einhverri einni hillu, en framþróun og þróun í vöruframboði er ekki mikil. Það er vegna þess að þessir sömu bændur eru ofurseldir þeim einokunarmatvörukeðjum sem eru hérna.

Þetta eru allt saman hlutir sem við þurfum að taka til athugunar. Auðvitað þurfum við að hugsa til þess að framleiða miklu meira af matvælum. Ég nefni eitt dæmi: Hvað halda menn að sé mikil kolefnislosun sem fylgir því að flytja kíló af gulrótum frá Tenerife til Íslands? Við eigum að framleiða þá vöru hér heima sem allra mest. Að sjálfsögðu. Með íslensku heilnæmu vatni.