149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

staða lýðræðislegra kosninga.

[13:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp þetta mikilvæga mál. Það er ekki aðeins mikilvægt fyrir okkur sem sitjum á Alþingi heldur ekki síður fyrir samfélagið allt. Ég er sammála hv. þingmanni um að tilkoma nútímatækni og samfélagsmiðla hefur þegar gerbreytt allri stjórnmálaumræðu, allri lýðræðislegri umræðu, og það er mjög mikilvægt að við tökum þá þróun til umræðu.

Um erindi Persónuverndar, sem hv. þingmaður vísar í, munum við í forsætisráðuneyti eiga fund í þessari viku með dómsmálaráðuneytinu sem fer með framkvæmd kosninga. Ég tel það góða hugmynd sem þar birtist um að koma þurfi á laggirnar samráðsvettvangi um framkvæmd kosninga eins og Persónuvernd leggur til. Þá hafa framkvæmdastjórar stjórnmálaflokkanna óskað eftir því að halda áfram vinnu sinni. Meðal þess sem komið hefur fram í fréttum er að teknar hafa verið saman leiðbeiningar um starfsemi stjórnmálaflokka. Hér á landi erum við með lög um fjármál stjórnmálaflokka. Margt horfir þar til úrbóta fyrir starfsemi stjórnmálaflokka sem eykur gagnsæi, eykur líkur á því að ekki sé hægt að kosta starfsemi stjórnmálaflokka án þess að það sé með algerlega skýrum og gagnsæjum hætti og sett eru hámörk á það hve mikið lögaðilar og einstaklingar geta stutt við starfsemi stjórnmálaflokka. En enn vantar okkur heildarlög um starfsemi stjórnmálaflokka þar sem m.a. yrði horft til persónuverndarsjónarmiða.

Eins og komið hefur fram í umræðu á evrópskum vettvangi er mjög mikilvægt að stjórnmálaflokkar lúti slíkum reglum og fóti sig í nýju umhverfi persónuverndarlaga. Fleiri þættir þurfa að koma inn í heildarlög þannig að ég hyggst óska eftir því við framkvæmdastjóra að þeir haldi áfram vinnu sinni og ljúki við gerð nýrra heildarlaga um starfsemi stjórnmálaflokka. Það eitt og sér dugar ekki til. Stjórnvöld þurfa líka að bregðast við og slíkur samráðsvettvangur eins og Persónuvernd nefnir gæti verið hugmynd.

Síðan er það bara, og ég kem kannski að því í seinna andsvari, mjög mikilvægt að við tökum sérstaklega á þessu máli þegar kemur að menntun og fræðslu almennt í samfélaginu.