149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

rekstrarumhverfi afurðastöðva.

[14:06]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Já, ég er ekki endilega með sömu afstöðu í málinu og hv. fyrirspyrjandi. Þess vegna hefði hann kannski kosið að hafa svar mitt með öðrum hætti. En ég held að við séum alveg sammála um það, báðir tveir, að ákveðin tækifæri eru í þessu. Spurningin er sú hvernig eigi að leiða þau fram.

Ég er þeirrar skoðunar að löggjafinn hafi sett öllu samstarfi og samkeppni á markaði á Íslandi ákveðinn lagaramma. Ég held að við eigum að vinna innan hans, svo langt sem það nær. Þær spurningar sem hv. þingmaður spyr hér og varpar upp snúast um hvernig eigi að deila hagnaðinum af samþættingu þessarar starfsemi til neytenda og bænda.

Það verður að leiða fram svör við þeim spurningum. Til þess eru stofnanir okkar betur færar en ráðuneyti landbúnaðarmála.

Ef sú leið er ekki fær og ef hún skilar ekki neinu verðum við að taka málið upp á öðrum forsendum og til þess er ég reiðubúinn. En ég hef hins vegar fulla trú á því að við getum leitt (Forseti hringir.) fram niðurstöðu í málinu eftir núgildandi lagaverki.