149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

skýrsla um áhrif hvala á lífríki sjávar.

[14:09]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar og skal hafa um þær nokkur orð.

Það hefur í rauninni legið fyrir lengi að leyfi til hvalveiða væri að renna út á síðasta ári og komið væri að þeim tímapunkti að taka þyrfti einhverjar ákvarðanir í þeim efnum. Á þeim grunni setti ég málið í þann farveg sem ég greindi frá á síðasta ári, að fara annars vegar út í það að óska eftir því við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að vinna þetta svokallaða þjóðhagslega mat af áhrifum hvalveiða og sömuleiðis við Hafrannsóknastofnun að leggja mat á áhrif hvala í vistkerfinu, þ.e. sérstaklega varðandi fæðuþörf og vægi þeirra í lífríkinu. Ég gaf þá strax út að hvort tveggja þessi verk myndi nýtast ásamt öðru við ákvörðun um það hvort við héldum áfram hvalveiðum eða legðum þær af.

Þegar spurt er hvort ég leggi blessun mína yfir og sé sammála einhverjum þáttum skýrslunnar vil ég undirstrika það að fyrst af öllu tel ég málsmeðferð af hálfu ráðuneytisins réttmæta, þ.e. að reyna að styðjast við sem hlutlægasta ráðgjöf hverju sinni.

Í annan stað vil ég segja að skýrsla Hagfræðistofnunar, sem hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni, er alfarið á ábyrgð þeirrar stofnunar og hún verður að tala sjálf fyrir niðurstöðu og sverja þær annaðhvort af sér eða trúnað við þær. Þeir hafa reynt að gera það með ýmsum hætti á undanförnum tveimur vikum.

Ég held hins vegar að margir þættir í skýrslunni séu eðlilega umdeildir. Ég deili ekki skoðun með því að hægt sé að alhæfa um það að umhverfissamtök séu hryðjuverkasamtök, enda hef ég lúmskan grun um að forsvarsmenn Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands séu einfaldlega ekki á þeirri skoðun, að hryðjuverkasamtök (Forseti hringir.) og umhverfissamtök á Íslandi séu öll saman felld undir þann hatt. Það er langur vegur frá að svo sé.