149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[15:17]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég er ánægður að heyra að hann er sammála mér um að það sé löngu tímabært að hefja söluferli á fjármálafyrirtækjunum, í það minnsta öðrum ríkisbankanum.

Það er hins vegar sýknt og heilagt búið að tala um þörfina á að klára endurskoðun regluverks. Það er ágætt að hafa í huga að þetta regluverk á líka við öll hin fjármálafyrirtækin. Ríkið á ekki allan fjármálamarkaðinn og getur alveg haldið áfram að þróa það regluverk, enda er það viðvarandi verkefni óháð því hvort það á algerlega ráðandi hlut í fjármálafyrirtækjunum eða ekki.

Vandinn er hins vegar að það er ekkert verið að gera til að draga úr þessu samkeppnishamlandi eignarhaldi ríkisins á fjármálamarkaði. Staðreyndin er sú, sem við sjáum þegar við lesum þessa skýrslu, að við erum með alveg gríðarlega óhagkvæmt og kostnaðarsamt fjármálakerfi sem er fyrst og fremst á ábyrgð stjórnvalda. Við erum með hátt grunnvaxtastig út af ónothæfum gjaldmiðli. Við erum með hátt vaxtaálag út af gríðarlega miklum kröfum, en sérstaklega sérstakri skattheimtu á fjármálakerfið. Og síðast en ekki síst erum við með litla sem enga samkeppni (Forseti hringir.) á fjármálamarkaði af því að ríkið er algerlega ráðandi aðili á markaðnum. Ég sé engin merki um það hjá ríkisbönkunum að þeir séu sérstaklega beita sér í samkeppninni.

Kostnaðarsamt, dýrt fjármálakerfi fyrir neytendur og lítil og meðalstór fyrirtæki er algerlega á ábyrgð stjórnvalda.