149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[15:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að svara síðari spurningunni. Það er auðvitað með því að hér sé virk samkeppni, þá á kostnaður í bankakerfinu að endurspegla það umhverfi sem bankarnir eru í en ekki einokunarstöðu þeirra. Öll gjaldtaka í bankakerfinu ætti þess vegna, ef okkur tekst að hámarka möguleika okkar á samkeppni á fjármálamarkaði, að endurspegla það, ef við drögum úr sköttum og gjöldum. Því trúi ég og því trúa höfundar hvítbókarinnar og þeir leggja mjög eindregið til að við ljúkum því að lækka bankaskattinn. Það ber að hafa í huga í tengslum við hann að hann leggst ekki á alla með jafn miklum þunga og skekkir líka samkeppnisstöðu á lánamarkaði.

Varðandi hitt, traust á bankakerfinu, eru í hvítbókinni fjölmargar hugmyndir sem okkur ber að taka til skoðunar og hrinda í framkvæmd, sem eru beinlínis til þess fallnar að mati höfunda að auka traust á kerfinu með því að gera kerfið allt skilvirkara. Með skilvirkara kerfi og sanngjarnara telja höfundar skýrslunnar að traust fari vaxandi. Það eru mikilvægir þættir.

Hvað varðar hvernig þeir tengjast eignarhaldinu er alveg rétt hjá hv. þingmanni að við höfum töluvert rætt um eignarhald en mikil ósköp höfum við líka rætt mikið um breytt regluverk og hvernig við getum hugað að betri þjóðhagsvarúð og eindarvarúð í kerfinu, hvað við höfum gert til að draga úr áhættu fyrir ríkissjóð af óróa í fjármálakerfinu. Um það vitna allar reglurnar og breytingarnar sem hafa verið gerðar síðustu tíu ár. Um það höfum við ekki bara rætt, við höfum lögfest þær breytingar. Um þær hafa komið út sérstakar skýrslur, til að draga þetta saman, og það er enn gert (Forseti hringir.) í skýrslunni hér. Ég tel að tímabært sé orðið að huga að breytingum á eignarhaldinu. Ég trúi ekki öðru (Forseti hringir.) en að hv. þingmaður sé mér sammála um það. Hún hefur setið í ríkisstjórn sem lagði til sölu á eignarhlut í ríkisbanka.