149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:08]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir andsvarið og ágætar og mjög mikilvægar hugleiðingar. Það er sjálfsögð krafa ef á að fara lækka bankaskattinn, eins og í þessu tilfelli, að almenningur sjái að það beri árangur þegar kemur að t.d. gjöldum og vöxtum og að almenningur hafi hag af því.

Því miður hræða sporin í þeim efnum. Við sjáum, eins og ég rakti í ræðu, að búið er að hagræða heilmikið í bankakerfinu. Búið er að segja upp mjög mikið af fólki í bankakerfinu og margar fjölskyldur hafa misst vinnuna, sem þýðir væntanlega að rekstrarkostnaður bankanna hafi minnkað. Þetta eru stærstu útgjöld bankanna, laun og launatengd gjöld, en við höfum hvergi séð í t.d. gjaldskránni að hún hafi lækkað.

Ég lýsi eftir því hvort einhver í salnum hafi orðið var við að gjaldskrá bankanna hafi lækkað eitthvað á undanförnum árum. Ég efast stórlega um það.

Ég held að það sé sameiginlegt verkefni okkar hér að við lækkun bankaskattsins, sem vissulega má færa ákveðin rök fyrir að sé nauðsynleg og kannski í aðdraganda þess að bankarnir verði seldir, hafi neytendur hag af því.

Eins og hv. þingmaður nefndi vitum við að þegar virðisauki á vörum o.s.frv. er lækkaður er náttúrlega virkt verðlagseftirlit, eins og verkalýðsfélögin o.fl., sem fylgist mjög náið með því hvort lækkanir af því tagi skili sér til neytenda. Því er ekki fyrir að fara í þeim efnum hvað bankakerfið varðar. Það er spurning hvort ekki sé mikilvægt að fylgst verði kerfislega (Forseti hringir.) með því hvort lækkanir af því tagi skili sér til neytenda, því að þær hafa ekki gert það hingað til. Við sjáum það greinilega hvað varðar gjaldskrárhækkanir bankanna.