149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:11]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Forseti. Þetta eru góðir punktar sem hv. þingmaður kemur með og í því samhengi vert að taka fram að það orð sem Íslendingar minnast oftast á þegar spurt er út í bankakerfið er græðgi, samkvæmt könnun Gallups sem gerð var fyrir hvítbókina. Þegar maður horfir á vaxtastigið eru vissulega hinir sértæku skattar og gjöld há á Íslandi miðað við önnur lönd. En þau vega samt ekki nema mjög lítið brot af heildarvaxtakostnaði bankanna, þ.e. af neytendalánum. Stærsti þátturinn, alla vega 60%, er stýrivextir Seðlabankans. Væri því ekki nær lagi að tala um hvort ekki þurfi að beita einhverjum öðrum hagstýringartólum hjá Seðlabankanum til að geta minnkað stýrivexti og reyna að stýra verðbólgu, sem stýrivöxtum er ætlað að stýra, á annan hátt. Það eru náttúrlega til mörg verkfæri sem skila því, þannig að vextirnir geta almennt lækkað. Það að núlla út alla sértæka bankaskatta myndi samt ekki minnka meðalverð á láni nema um 0,2 prósentustig og raunar tæplega það.

Mér þætti gaman að heyra hvað hv. þingmanni þykir um þá nálgun að leggja minni áherslu á þessa tilteknu skattalækkun og meiri áherslu á að laga grunnkerfi fjármála- og peningakerfisins þannig að hægt sé að lækka stýrivexti svo um munar.