149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:13]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni mjög áhugaverða nálgun á málinu. Ég tek alveg undir það með honum að við þurfum að leita allra leiða til að reyna að lækka þann fjármagnskostnað sem almenningur þarf að búa við hér á landi. Við ræddum þetta þegar rætt var um peningastefnuna í þingsal og þá var komið inn á stýrivaxtahækkun Seðlabankans o.s.frv. Þar held ég að sé afar mikilvægt að ríki gagnsæi. Það hefur ekki verið og of mikil leyndarhyggja yfir stýrivaxtahækkunum Seðlabankans. Það kom m.a. fram í skýrslunni að því þyrfti að breyta og að líka væri nauðsynlegt að birta hugleiðingar nefndarmanna. Í skýrslunni kom margt fram sem lýtur að því sem hv. þingmaður nefndi hvað þetta varðar og sjálfsagt að skoða það.

Mér finnst það líka athyglisvert sem hv. þingmaður sagði, að ef skattarnir yrðu urðu núllaðar út myndi það lækka lánin óvenju lítið. Ég þekki það ekki nánar og þekki þá útreikninga ekki, en hv. þingmaður er stærðfræðingur og hefur sjálfsagt legið yfir þeim tölum og skal ég ekki rengja að það. En þetta er mjög athyglisvert.

Það sem skiptir einnig verulegu máli í mínum huga við að reyna að lækka vaxtamuninn og gjöldin á almenningi þegar kemur að fjármálagerningum er að við fáum samkeppni í bankakerfið. Ég held að nauðsynlegt sé í fyrirhuguðu söluferli að við leitum allra leiða til að hingað komi erlendur banki og hefji starfsemi. Það er afar mikilvægt. Þá verður meiri samkeppni, virkari samkeppni sem við þurfum öll á að halda og mun vonandi (Forseti hringir.) skila sér, og gerir það örugglega, í formi lægri gjalda.