149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:44]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að málflutningur hv. þm. Smára McCarthys sé enn mótsagnakenndari en hjá hv. þm. Birgi Þórarinssyni. Hv. þingmaður segist ekki vera neinn sérstakur áhugamaður um að ríkið eigi bankana. Svo kemur næsta setning, sem var að vísu á undan: Á nú að fara að selja gullgæsina og afhenda auðmönnum hagnaðinn en við að greiða tapið?

Hvernig á að skilja þetta? Ég skil það þannig að maðurinn sé sérstakur áhugamaður um að ríkið eigi bankana.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann, vegna þess að hann gerir lítið úr þeim samkeppnissjónarmiðum sem koma fram í hvítbókinni: Fyndist hv. þingmanni eðlilegt ef einhver annar ætti 70–75% af fjármálakerfinu? Væri einhver samkeppnisskekkja í því? Finnst þingmanninum sjónarmið Samkeppniseftirlitsins sem koma fram í hvítbókinni og í áliti þess bara einskis virði eða ekki mark á takandi?

Það er alveg rétt að eignarhald þarf að vera trúverðugt. Eignarhald eins aðila — þótt hann heiti ríkið — á 70–75% í samkeppnisrekstri á íslenskum markaði er ekki trúverðugt, þó að við reynum að draga úr því um 2–4% á ári næstu áratugina, fjóra, eða hvað það var.

Þetta er málflutningur sem er einhvern veginn út og suður. Maður áttar sig ekki á hver sé raunveruleg stefna þingmannsins eða hans flokks, hvað hann telji skipta máli. Telur hv. þingmaður skipta máli að hér gildi einhverjar samkeppnisreglur í þessu eða ekki? Hvort skynsamlegt sé út af áhættunni (Forseti hringir.) að ríkið eigi þessa banka alla, eða hvað? Ég bara er engu nær.