149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:53]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við fjöllum um hvítbókina um fjármálakerfið á Íslandi. Ég ætla aðeins að fara yfir nokkra punkta í henni.

Það er gegnumgangandi í hvítbókinni að tækniþróunin sé að taka við og af því leiði, eðli máls samkvæmt, ýmsar breytingar til hins betra sem eru líka til þess að auka möguleika í fjármálaþjónustunni. Talað er um að lagabreytingar frá Evrópusambandinu leiði til þess að aukin samkeppni verði á sviði fjármálaþjónustu og einnig verði auðveldara fyrir neytendur að færa sig á milli fjármálafyrirtækja sem eru í samkeppni.

Í hvítbókinni er talið að með virkri samkeppni fjármálafyrirtækja á markaði muni ágóðinn af aukinni skilvirkni fjármálafyrirtækja, vegna örrar tækniþróunar, skila sér að miklu leyti til neytenda í formi betri kjara. Að mínu mati er rétt að löggjafinn haldi áfram að móta löggjöf á sviði fjármálafyrirtækja og fjármálaþjónustu með hagsmuni neytenda að leiðarljósi. Það rímar mjög vel við stefnu okkar Vinstri grænna.

Einnig er talað töluvert um stafrænar lausnir. Þær eru það sem koma skal í þeim heimi og hafa hafið innreið sína af miklum mætti. Þar eru alls konar lausnir í boði sem hefur orðið til þess að útibúum og starfsfólki hefur fækkað. Vissulega er mikilvægt að fjármálafyrirtæki haldi áfram að svara ákallinu um hátt þjónustustig í fjármálaþjónustu og veiti persónulega þjónustu í útibúum. Við þekkjum það sem búum í litlum samfélögum úti í hinum dreifðu byggðum að þegar bankinn og pósthúsið og ýmislegt annað lokar finnst manni farið að halla undan fæti, sérstaklega fyrir þá sem eru ekki tilbúnir í mikla rafrænu þjónustu, eins og eldra fólk. Það hefur þó ekki breytt því að störfum hefur fækkað og útibúum verið lokað.

Í hvítbókinni er talað um orsakir fjármálahrunsins og þann hraða vöxt sem þar varð, stærð bankakerfisins, samþjöppun áhættunnar og skuldsetningu eigenda, veikt eigið fé bankanna, regluverkið og eftirlitsumhverfið. Talað er um undirmönnun og reynsluleysi hjá FME og Seðlabankanum, burðarleysi hans sem lánveitanda til þrautavara. Einnig að innstæðutryggingarsjóðurinn hafi verið of lítill miðað við stærð kerfisins og skortur sé á samhæfðri efnahagsstefnu.

Komið er inn á mjög margt og mjög stuttur tími sem maður hefur til að fara yfir svona viðamikið mál. Vissulega er það svo að eftir hrun höfum við brugðist við mjög miklu af því sem gagnrýnt hefur verið. Dregið hefur verið úr áhættu í bankastarfseminni og hvatinn til áhættusækni minnkað töluvert. Viðnámsþróttur bankakerfisins hefur verið styrktur, t.d. með auknum kröfum um magn og gæði eigin fjár og takmarkanir á skuldsetningu banka, þannig að bankar eru nú betur í stakk búnir til að takast á við áföll.

Gerðar hafa verið breytingar á eftirliti sem eiga að leiða til betra eftirlits, aukinnar yfirsýnar og skýrari ábyrgðar, t.d. með auknum heimildum til tímalegra inngripa og samstarfs stjórnvalda. Umbótaverkefni hjá FME, eins og innleiðing áhættumiðaðs eftirlits, hefur t.d. bætt eftirlitið. Einnig eru enn í gildi ákvæði neyðarlaga sem heimila umfangsmikil inngrip í starfsemi fjármálafyrirtækja en unnið er að innleiðingu tilskipana sem formfesta aðgerðaáætlun fyrir banka og eftirlitsaðila um viðbrögð komi upp erfiðleikar. Þeirri tilskipun er ætlað að leysa ákvæði neyðarlaganna af hólmi.

Mig langaði að koma inn á aðskilnað viðskipta- og fjárfestingarbanka af því að aðeins hefur verið fjallað um það. Vinstri græn hafa lagt fram þingmál um það áður og oftar en einu sinni. Hér er slíkur aðskilnaður hins vegar ekki lagður til og talað um stærðar- og breiddarhagræði í okkar litla hagkerfi, en auðvitað líka fjallað um kosti slíkra banka.

Ég held að við eigum að velta því fyrir okkur og vona að nefndin skoði með opnum huga hvort hægt sé að takmarka þetta, a.m.k. að einhverju leyti.

Hæstv. ráðherra kom inn á varnarlínurnar milli viðskiptabanka og fjárfestingarstarfsemi. Talið er álitlegt að skoða hagsmunaárekstra innan samreksturs þeirra tegunda af banka og hvítbókin leggur til að FME verði falið að setja slíkar reglur um varnarlínur. Áhugavert verður að heyra hvernig umfjöllunin um það verður í nefndinni.

Mér finnst í sjálfu sér margt mjög jákvætt sem kemur fram í hvítbókinni. Áherslur á umhverfi og samfélag eru sífellt að aukast í starfsemi banka og annarra fjármálafyrirtækja og mér finnst lykilatriði að slík þróun haldi áfram.

Í hvítbókinni er umfjöllun um banka sem hefur það grunnmarkmið að haga rekstrinum fyrst og fremst samfélaginu til hagsbóta og hefur oft verið nefndur samfélagsbanki. Líkt og kemur fram er það hægt með því t.d. að leggja áherslu á þjónustu við samfélagið í eigendastefnu bankans og beina lánveitingum til minni og meðalstórra fyrirtækja í nærumhverfinu.

Í því samhengi er einnig nefnt að eigandi eða eigendur slíks banka myndu stilla arðsemiskröfu sinni af starfseminni í hóf þannig að krafan væri ekki til þess fallin að auka og ýta undir áhættusækni.

Ekki er ólíklegt að slík stefna banka og annarra fjármálastofnana gæti haft jákvæð áhrif á til að mynda minni samfélög í hinum dreifðu byggðum, ég tala nú ekki um þau sem eiga undir högg að sækja. Slíkar lánveitingar gætu styrkt nýsköpun í byggð og þannig verið lyftistöng fyrir atvinnulífið á svæðinu og aukið hagsæld.

Við þekkjum verkefni Byggðastofnunar, Brothættar byggðir, sem hefur sýnt fram á að litlir fjármunir geta skipt miklu máli og haft gríðarlega jákvæð áhrif á slík samfélög. Þetta gæti verið einn liður í því að stöðva og vonandi snúa við fólksfækkuninni sem hefur átt sér stað allt of víða á landsbyggðinni, auk þess að stuðla að meiri fjölbreytileika í atvinnulífinu.

Mikið hefur verið talað um samkeppni og lækkun vaxta eða ekki lækkun vaxta. Ég held að alveg ljóst sé að þar er margt sem hefur spilað inn í. Þótt við þurfum eflaust að gera mun betur er því ekki að leyna að vextir hafa lækkað, m.a. vegna þess að lífeyrissjóðirnir fóru inn á íbúðamarkaðinn. Það er líklega einn þátturinn og fleiri þætti mætti nefna í því samhengi.

Mér finnst góðar áherslur hér og ég get samsamað mig að miklu leyti umsögn Ásgeirs Brynjars Torfasonar, lektors í fjármálum. Ég vona að hún fái góða umfjöllun, eins og aðrar auðvitað, í nefndinni þegar málið verður tekið þar inn. Þar er margt reifað sem mér hugnast.

Ég sagði líka að umhverfismálin hefðu rutt sér til rúms í áherslum fjármálafyrirtækja. Mér finnst eitt af lykilatriðum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum að samfélagið allt saman leggi lóð sitt á vogarskálarnar til að bregðast við þeirri vá, þar á meðal með útgáfu grænna skuldabréfa og lánveitingum á hagstæðari kjörum vegna kaupa t.d. á vistvænum bifreiðum. Það eru dæmi um jákvæða þróun á því sviði sem mun vonandi halda áfram á komandi árum.

Síðan vil ég segja að sú hraða þróun sem hefur orðið á sviði fjártækni mun breyta ýmsu í fjármálageiranum á komandi árum. Fjártæknin mun opna á ýmsa möguleika og vonandi meðfram nýju regluverki stuðla að aukinni samkeppni. Ég vona svo sannarlega að neytendur fái að njóta góðs af þeirri þróun í formi bættra kjara, enda er það svo að nauðsynlegt er að neytendur upplifi að kerfið vinni með þeim. Við Vinstri græn höfum talað fyrir samfélagsbanka, höfum ályktað um það á fundum okkar. Við teljum að skynsamlegt sé að ríkið eigi stóran eignarhlut í einum banka og ég held að við höfum ekkert hvikað frá því.

Mér finnst líka ágætt að sala banka hafi verið slegin af á þessu ári.

Ég tek undir að það borgi sig að fara rólega og sjá til hvernig markaðurinn tekur við þessu. Ég sé ekki fyrir mér að einhver erlendur fjárfestir vilji kaupa 2–4% í íslenskum banka. Það getur vel verið að það sé spennandi fyrir einhvern stóran erlendan fjárfesti eða banka en mér finnst það frekar ólíklegt.

Varðandi samfélagsbankahugmyndina er könnun Gallups kynnt í hvítbókinni en í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram að aðalástæðan fyrir litlu trausti á bankakerfinu séu háir vextir og dýr þjónusta. Við getum ekki litið fram hjá því að ekki eru nema rétt rúmlega tíu ár liðin frá hruni og það hefur enn þá áhrif á upplifun fólks af bankakerfinu. Næstflestir nefndu það atriði sem ástæður lítils trausts á kerfinu. Aftur á móti sagði helmingur að bætt kjör og lægri kostnaður gæti aukið traust þeirra á bankakerfinu og nefndu tæp 40% bætta viðskiptahætti.

Í ljósi þeirra niðurstaðna tel ég að þau atriði sem ég hef (Forseti hringir.) drepið á, áherslur á umhverfi og samfélag og nýjar tæknilausnir, skili sér í bættum kjörum til neytenda og séu liður í því að auka traust til bankakerfisins til lengri tíma.