149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:19]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það er rétt að fagna þeirri umræðu sem á sér stað hér um hvítbókina um framtíðarfyrirkomulag fjármálakerfisins. Þetta er löngu tímabær umræðu. Og þó svo að ég verði að viðurkenna að flest það sem í þessari skýrslu kemur fram sé, getum við sagt, nokkuð sjálfgefin atriði sem hafa verið í umræðunni býsna lengi — það er fátt nýtt í sjálfu sér sem þessi hvítbók færir okkur í sannleika um hvað mikilvægt sé að gera eða hvað hafi áunnist í fjármálakerfinu — þá er þetta ágætistækifæri til að taka umræðuna um hvert við ætlum að stefna með fjármálakerfið hér á landi.

Það er rétt að taka fram í upphafi að gríðarlega mikið hefur áunnist í endurskipulagningu fjármálakerfisins á undanförnum áratug. Regluverkið er allt annað. Við höfum umbylt því, m.a. í samstarfi og með hliðsjón af þeim breytingum sem átt hafa sér stað innan Evrópusambandsins á sama tíma. Eftirliti með fjármálakerfinu hefur verið umbylt og staða fjármálakerfisins í dag er allt önnur en var hér fyrir röskum áratug síðan. Kerfisbundin áhætta í fjármálakerfinu er miklum mun minni en þá var. Það er allt saman mikið fagnaðarefni hversu vel hefur tekist til við endurskipulagninguna, sérstaklega á regluverkinu og eftirlitinu.

Það skilur mann hins vegar eftir með þá hugsun hver sé tilgangur fjármálakerfis. Til hvers þurfum við banka? Það er jú á endanum að þetta sé samkeppnishæf miðlun á fjármagni fyrir heimili og fyrirtæki. Þar er kannski ekki hvað síst mikilvægast að horfa til lítilla og meðalstórra fyrirtækja og hvernig fjármálakerfið geti þjónað þeim fyrirtækjum og heimilunum auðvitað líka. Ef við horfum á veruleikann hér og umhverfið sjáum við að fjármálamarkaðurinn er margskiptur. Stærstu alþjóðlegu fyrirtækin okkar eiga lítil sem engin viðskipti við innlenda bankakerfið. Þau sækja sína fjármögnun beint til útlanda, til alþjóðlegra banka sem geta boðið samkeppnishæf lán í erlendri mynt á allt öðrum kjörum en innlenda bankakerfið getur boðið þeim. Það eru því fyrst og fremst einstaklingarnir og smærri og meðalstór fyrirtæki sem þurfa að reiða sig á innlenda bankakerfið.

Það er dregið mjög skýrt fram í þessari skýrslu að fjármálakerfið okkar er óhagkvæmt og dýrt. Vaxtastig er hér að jafnaði nærri 5% hærra en í nágrannalöndum okkar. Þar verður að nefna hið augljósa fyrst sem kemur mjög skýrt fram í skýrslunni: Hátt vaxtastig ræðst af háu grunnvaxtastigi, háum stýrivöxtum, sem er kostnaðurinn við örsmáa og óstöðuga mynt. Þetta verður aldrei of oft nefnt og það verður aldrei undan þessari umræðu komist. Við munum aldrei njóta sambærilegra vaxta við nágrannalönd okkar með þá örsmáu mynt sem við búum við. Það er auðvitað grunnurinn að því að vextir hér eru svona miklu hærri en í nágrannalöndum okkar.

En það er ekki eitt og sér tæmandi skýring. Vaxtamunur bankanna er líka mjög mikill. Meðalvaxtamunur bankanna hér er um 3%. Það er þrefaldur vaxtamunur stórra norrænna banka, sem er um 1%. Það er 50–100% hærri vaxtamunur en vaxtamunur norrænna banka af sambærilegri stærð og þeir íslensku. Þetta sýnir hversu óhagkvæmir og ósamkeppnishæfir bankarnir eru. Ekki verður heldur komist hjá því að ræða það að a.m.k. helmingurinn af þessum viðbótarvaxtamun, getum við sagt, þessum óhóflega vaxtamun sem bankarnir bjóða upp á, skýrist af háu og sérstöku skattstigi á innlenda fjármálaþjónustu. Og ætli það megi ekki fullyrða þessu til viðbótar að mismunurinn skýrist af ónógri samkeppni, sem líka er bent ágætlega á í hvítbókinni. Ráðandi eignarhald ríkisins á fjármálamarkaði hér á landi stuðlar að allt of lítilli samkeppni á innlendum fjármagnsmarkaði. Það er kjarni málsins sem stjórnvöld geta ekki vikið sér undan.

Dýrt, óhagkvæmt fjármálakerfi sem ekki þjónar tilgangi sínum, þjónar ekki litlum og meðalstórum fyrirtækjum, þjónar ekki hagsmunum neytenda, er algjörlega á ábyrgð stjórnvalda. Þetta er gjaldmiðillinn, þetta er skattlagningin á fjármálakerfinu, þetta er eignarhald ríkisins. Stjórnvöld hafa góð tök á öllum þessum þremur þáttum ef vilji væri til þess að breyta. Á þessum þremur þáttum bera stjórnvöld alla ábyrgð. Það væri því algerlega á færi innlendra stjórnvalda að ráðast í þær nauðsynlegu breytingar sem þarf til þess að geta skapað samkeppnishæft fjármálakerfi sem nýttist öllum landsmönnum.

Það sem við sitjum uppi með er fjármálakerfi þar sem stærstu alþjóðlegu fyrirtækin leita út fyrir landsteinana, fjármagna sig beint hjá alþjóðlegum bönkum á allt öðrum kjörum en bjóðast hér á landi. Þessi sömu alþjóðlegu fyrirtæki, eins og t.d. sjávarútvegsfyrirtækin, eru á sama tíma að auka verulega fjárfestingar sínar í óskyldum atvinnugreinum hér heima fyrir. Hér er kannski hinn nýi kolkrabbi að fæðast í skjóli þessa. Aðrir innlendir fjárfestar geta ekki keppt við það vaxtastig sem þessum fyrirtækjum býðst erlendis.

Lífeyrissjóðirnir hafa á endanum yfirtekið húsnæðisfjármögnun landsmanna, einstaklinganna. Og því til viðbótar má nefna að útgáfa og skráning skuldabréfa fyrirtækja á markaði hefur þrefaldast á aðeins fimm árum. Það segir okkur að heimilin, stærstu fyrirtækin og jafnvel millistóru fyrirtækin, traustustu skuldararnir hér á landi, eru — allir sem geta — að flýja þetta kostnaðarsama, dýra fjármálakerfi. Það hlýtur að vera okkur sem hér störfum verulegt umhugsunarefni að við getum ekki búið innlendu fjármálakerfi þá nauðsynlegu laga- og regluumgjörð, það efnahagsumhverfi, þá skattlagningu, sem þarf til að kerfið nýtist landsmönnum.

Fleira mætti nefna eins og bindiskyldu á erlendri fjármögnun sem er líka sagt hækka verulega fjármögnunarkostnað eða vaxtakostnað innlendra fyrirtækja.

Staðreyndin er einfaldlega þessi: Bankarnir þjóna ekki því hlutverki sem þeir ættu að þjóna. Þeir koma ekki heimilum og litlum og millistórum fyrirtækjum að gagni. Aðilinn sem situr eftir með reikninginn eru einmitt lítil og meðalstór fyrirtæki sem geta ekkert annað farið. Smæstu fyrirtækin, smæstu skuldararnir sem geta ekki leitað til erlendra banka, eru of lítil til að ráðast í skuldabréfaútboð og njóta ekki fyrirgreiðslu beint frá lífeyrissjóðum líkt og heimilin gera.

Á þessu verður að gera bragarbót. Það er alveg ljóst að við getum aldrei byggt upp samkeppnishæft innlent atvinnulíf ef það nýtur ekki þjónustu samkeppnishæfs fjármálakerfis. Þess vegna verður að ráðast í breytingar. Það felur í sér verkefnalista sem þessi ríkisstjórn ætti að vera með.

Hið fyrsta er hið augljósa: Kostnaðinn við gjaldmiðilinn verðum við að meta með hlutlægum hætti og skoða hvaða valkosti við eigum til þess að draga úr þeim kostnaði fyrir efnahagslífið. Það verður að endurskoða skattlagningu og það verður að endurskoða eignarhald ríkisins á fjármálakerfinu.

Það leiðir hugann að hinni sífelldu umræðu um það hvenær rétti tímapunkturinn sé til að selja. Þetta er spurning sem við erum búin að vera að kljást við í raun og veru undangenginn áratug, allt frá því að ríkið fékk fjármálakerfið í faðminn. Rökin hafa alltaf verið þau sömu: Það er ekki núna. Það er ekki rétt að selja á þessum tímapunkti. Við þurfum að klára að endurskoða regluverkið. Það eru ekki hagstæð markaðsskilyrði, ekki hentugir kaupendur og svo mætti áfram telja.

Ég held að við munum aldrei ná saman um hin fullkomna tímapunkt til að hefja sölu. Það er umhugsunarvert í þessu og augljóst að það mun taka langan tíma að losa eignarhlut ríkisins í bönkunum. Að mínu viti væri því mjög skynsamlegt að byrja á smáum skrefum. Í hvítbókinni er sérstaklega fjallað um mikilvægi þess að fá hér inn erlendan banka sem mögulegan eiganda að einu þessara fjármálafyrirtækja. Það væri hægt að taka utan um Íslandsbanka í því samhengi og gefa okkur tíma til að freista þess að finna erlendan banka sem hefði áhuga á því að kaupa bankann, jafnvel í heilu lagi eða að stórum hluta. En meðan á þeirri leit stæði (Forseti hringir.) væri vel hægt að hugsa sér að skrá Landsbankann í kauphöll hér á landi og jafnvel skráningu erlendis samhliða og hefja sölu í smáum skrefum. (Forseti hringir.) Með þeim hætti væri hægt að sjá hvernig markaðurinn tekur við bankanum og hvernig eignarhald á eftirmarkaði þróast meðan ríkið hefur alla stjórn á ferlinu og (Forseti hringir.) væri að vinna sig yfir þriggja til fimm ára tímabil niður í eignarhlut sínum, niður að settu marki sem gæti verið þriðjungs- til helmingshlutdeild í bankanum.