149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég tek undir það að við þurfum að skapa hér sterkan og góðan grunn. Ég veit að hv. efnahags- og viðskiptanefnd mun fara gaumgæfilega yfir þetta. Það skiptir máli að það skapist trú og traust á ferlinu. Þá fáum við einfaldlega meira fyrir bankana og við fáum ákveðinn grunn líka úti í samfélaginu til að þeir fari að virka sem skyldi og fólk fari að treysta því betur hvað er að gerast. Ég vil þó segja að traust á fjármálastofnunum hefur aukist. Það skiptir líka máli að draga það fram.

Ég er sammála því að það skiptir mestu máli að móta og skapa þessa stefnu. En það má heldur ekki fara frá umræðunni út af því að umræðan er erfið fyrir stjórnarflokkana. Við áttum okkur alveg á því. Við verðum að geta mótað stefnu; ætlum við að fara í söluferli að hluta til? Og ég vil draga það fram að ég er þeirrar skoðunar að við eigum að vera með kjölfestuhlut, t.d. í Landsbankanum — og talandi um stefnu að norskri fyrirmynd, sem hefur gefist afskaplega vel, hvernig ákvæði eru um setu fulltrúa ríkisins í stjórnum? Ég held að við þurfum ekki að leita langt yfir skammt til að öðlast traust á bankakerfinu og við getum ekki síst litið til Norðurlandanna.

Það hefur verið einkennandi í umræðunni að ekki er samhljómur milli flokkanna varðandi lækkun bankaskattsins. Meðan einn flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, talar um að mikilvægt sé að lækka bankaskattinn út af samkeppnishæfni bankanna, m.a. til að auka verð við hugsanlegt söluferli, hafa aðrir stjórnarflokkar goldið varhuga við því að fara í slíka lækkun. Ég spyr hv. þingmann út í þetta.

Að öðru leyti er ég ánægð með að heyra þennan tón. Mér finnst skipta máli að þingið fái svigrúm og tækifæri til að fara gaumgæfilega yfir allar þær vangaveltur sem eðlilega eru settar fram þegar umræða um sölu bankanna er annars vegar.