149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:25]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þetta. Það er augljóst að við blasa mismunandi skoðanir varðandi bankaskattinn eins og fleiri þætti.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann: Telur hann samhljóm vera á milli stjórnarflokkanna um hvað felist í samfélagsbanka? Það hafa tveir flokkar af þremur minnst sérstaklega á samfélagsbanka. Eða er þetta kannski hugmynd sem verður rædd frekar — og á að vera rædd auðvitað — í hvítbókarvinnunni innan efnahags- og viðskiptanefndar? Telur þingmaðurinn að nefndinni muni takast að varpa ljósi á það hvað felst í samfélagsbanka? Er hægt að hugsa sér að eiga kjölfestuhlut, eins og sagt er í stjórnarsáttmálanum?

Ég er sammála því að við eigum, alla vega eins og sakir standa, að fara hugsanlega leið svipaða þeirri norsku, eða jafnvel sænsku, þar sem ríkið er með ákveðinn eignarhlut í bönkum og aðkomu. Er það tegund af samfélagsbanka eða er hv. þingmaður og aðrir þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs með annað í huga? Þetta er kannski fyrsta spurningin í þessu.

Síðan vil ég líka draga fram og taka eiginlega undir með VG í þessu að það verður að fara varlega um leið og við megum ekki bara humma málið fram af okkur. Við verðum að sýna fram á hvað það er sem við viljum raunverulega með breytingu á bankakerfinu. Það er ekki hægt að draga dul á það að það væri ekki gott ef það væru bara Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur sem stæðu að einkavæðingu bankanna. Ég held að það myndi ekki stuðla að trausti og trúverðugleika á því ferli.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann: Er ekki heppilegra að fara í söluferli á bönkunum meðan Vinstrihreyfingin – grænt framboð er í ríkisstjórn?

Menn brosa hér og segja að ég hljóti örugglega að lýsa yfir ákveðnum trúverðugleika. Já, ég geri það. Það sem skiptir máli er að það komi ólíkar raddir að þessu. Við megum ekki gera þetta eins og síðast. Þá þurfum við að leita allra leiða og ég vil náttúrlega helst að það verði þverpólitískt samráð og samstaða um (Forseti hringir.) það hvernig við stöndum að því ef og þegar við förum í söluferlið á bönkunum. (Forseti hringir.)

Mér þætti gott að vita hvort hv. þingmaður teldi það ekki heppilegra að það kæmu fleiri flokkar að söluferli en bara Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur.