149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:43]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir hennar vangaveltur. Ég ætla að taka sérstaklega undir það sem hún sagði um samhljóminn. Ég held að það dragi fram hversu góð skýrslan er til þess brúks að skapa umræðuna. Ég vil líka hvetja hv. efnahags- og viðskiptanefnd, eins og hv. þingmaður kom inn á, til að dýpka þessa umræðu um eignarhald ríkisins á öðrum bankanum. Það kemur fram í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar að lagt er upp með að eiga hlut í öðrum bankanum. Sporin hræða. Segja má að einkavæðingin í aðdraganda hrunsins, þegar kerfið fór á hliðina, hafi hreinlega misheppnast. En umgjörðin um söluna er allt önnur í dag og ágætlega er farið yfir það í skýrslunni. Í raun er hún gjörbreytt frá því að bankarnir voru seldir síðast. Þess vegna held ég að við eigum að geta haft það ferli mun gagnsærra og vandaðra og það er mikilvægt að skýr stefna sé um það. Ég vil jafnframt taka það fram að þetta verður að skoðast í samhengi við þá gríðarlegu fjármuni sem við erum að binda í kerfinu og að við förum vel með þá. Þeir eru í almannaeigu. Fram undan er mikil uppbygging, í samgöngum, í menntakerfi, í heilbrigðiskerfi o.s.frv.