149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Vandræðagangur Breta ríður ekki við einteyming. Allri heimsbyggðinni er ljóst hversu mikilli krísu, Brexit-krísunni eins og þeir kalla hana sjálfir, þeir eru staddir í. Sá vandræðagangur er ekki vegna þess að Evrópusambandið sé svona svakalega vont að það vilji ekki sleppa takinu af Bretum heldur eru þau ólíkindamál öll vegna þess að Bretar eru að vakna upp við þann vonda draum að þeir eru að missa úr höndunum gott tæki, gott Evrópusamband, sem hefur verið þeim stuðningur í gegnum tíðina. Þeir héldu að þeir gætu bæði átt kökuna og étið hana.

Vandræðagangurinn er m.a. vegna þess að helstu baráttumenn Brexit í Bretlandi sögðu ekki satt. Þeir gengu ekki hreint til verks. Þeir lofuðu m.a. hlutum við útgöngu sem gengu ekki upp og sögðu síðan frekar digurbarkalega frá því strax á kosninganóttu að þeir hefðu í rauninni ekki meint alveg allt sem þeir sögðu í aðdraganda kosninga. Það var engin stoð fyrir fullyrðingum þeirra í raunveruleikanum.

Síðan horfum við upp á að hinir sem vildu að Bretar yrðu áfram í Evrópusambandinu fóru í tæknilegar bollaleggingar, fyrir utan frekar veiklulega forystu Verkamannaflokksins. En eftir stendur að bæði Skotar, Norður-Írar og unga kynslóðin vildu vera áfram í Evrópusambandinu. Það var miðaldra fólk og eldra sem ákvað framtíðina fyrir þau.

Þetta er brýning fyrir okkur hér heima að ganga hreint til verks og vera ekki með misvísandi framsetningu upplýsinga um mál.

Ég horfi auðvitað til EES-samstarfsins og -samningsins. Það er hætta á því að óreiða sé innan stjórnarflokkanna, að haukarnir innan stjórnarflokkanna séu að ná tökum á umræðunni um EES-samstarfið og beinlínis ógna þeim gríðarlega miklu hagsmunum sem tengjast EES-samstarfinu.

Þess vegna vil ég brýna allt alþjóðasinnað, frjálslynt, markaðssinnað fólk á þingi til að standa vörð um EES-samninginn og leyfa ekki haukunum að ná völdum með misvísandi og jafnvel röngum upplýsingum um Evrópusamstarfið.