149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Um þessar mundir bíða 4.000 manns á Íslandi eftir meðferðum eða aðgerðum. Þar af bíða 1.000 eftir liðskiptaaðgerðum. Meðalbiðtími fólks sem þarf að fara í liðskiptaaðgerð er 6–8 eða 10 mánuðir eftir að fá viðtal við lækni sem sker úr um það hvort viðkomandi skuli fara í liðskiptaaðgerð eður ei. Frá þeim tíma bíður viðkomandi í allt að 18–20 mánuði eftir aðgerðinni sjálfri.

Það þætti tíðindum sæta ef stjórnvöld á Íslandi myndu dæma fólk til einangrunar án dóms og laga, mörg hundruð saman, í langan tíma. En það er akkúrat það sem þessir biðlistar gera. Þeir verða til þess að fólk sem er þjáð og getur ekki hreyft sig eðlilega einangrast; það ferðast ekki um, mætir ekki á fundi, fer ekki í bíó, vegna þess að það getur ekki setið heila bíósýningu. Það biður um verkjatöflur og við getum reiknað með því að þessi 1.000 manna hópur, sem er að staðaldri nú á biðlista eftir liðskiptaaðgerð, borði svona eina milljón taflna á ári.

Á meðan eru hér til tækifæri til að stytta þessa biðlista með því að leyfa einkaklíník í Reykjavík að gera liðskiptaaðgerðir. Þær kosta u.þ.b. 1,2 millj. kr. stykkið. En heilbrigðisráðherra og hennar hópur vill það ekki, hatast við allt sem einkarekið er og hefur, merkilegt nokk, fengið Sjálfstæðisflokkinn í þann leiðangur með sér.

Þetta sama fólk er reiðubúið til að senda sjúklinga til Svíþjóðar á einkaklíník þar sem kostnaðurinn er þrefaldur.

Nú eru u.þ.b. 400 manns sem eiga rétt á því samkvæmt Evróputilskipun að fara til Svíþjóðar í slíka aðgerð. Ég hvet alla sem nú sitja heima og þjást að nýta sér þennan rétt sinn (Forseti hringir.) og fara til Svíþjóðar og fá mein sín grædd þar, þó að það kosti ríkissjóð þrefalt.