149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

almenningssamgöngur og borgarlína.

[15:42]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að hafa frumkvæði að því að taka þetta mál hér til umfjöllunar í dag.

Varðandi hvernig ríkisstjórnin beitir sér fyrir því að hægt verði að hefjast handa við borgarlínu og hvenær reikna má með að fyrstu áfangar hefjist er gert ráð fyrir að nauðsynlegar undirbúningsaðgerðir vegna uppbyggingar borgarlínu hefjist strax nú í ár, þ.e. á árinu 2019, og 2020 samkvæmt niðurstöðu samráðshóps SSH, Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, og ríkisins varðandi uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

Í framhaldinu er gert ráð fyrir að verklegar framkvæmdir við fyrsta áfanga hefjist að fullu 2021.

Þannig eru í samgönguáætlun áætlaðar 300 millj. kr. á árinu 2019 og 500 millj. kr. á árinu 2020 til þess að standa við samkomulagið.

Ríkið hefur með virkum hætti komið að undirbúningi þess að þær hugmyndir sem lagðar hafa verið fram varðandi borgarlínuna, hágæðaalmenningssamgöngur, verði að veruleika, bæði í gegnum umræddan samráðshóp sem og þátttöku í stýrihópi um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Ríkisvaldið hefur fullan hug á að halda þeirri samvinnu áfram. Næstu skref felast m.a. í því að semja við SSH um nánari útfærslu á aðkomu sveitarfélaganna, á aðkomu ríkisins, bæði tæknilega og ekki síst fjárhagslega aðkomu. Framvinda málsins er háð því hve hratt aðilar máls komast í gegnum þá vinnu, en hún er fyrirhuguð á næstu vikum.

Umferðarspá sýnir, eins og hv. þingmaður kom inn á, að verði einungis ráðist í stofnvegaframkvæmdir mun umferð á höfuðborgarsvæðinu eftir sem áður aukast um ríflega 40% til ársins 2033 og umferðartafir um 25% umfram þær tafir sem nú eru. En ef almenningssamgönguverkefnið verður gert samhliða verður aukningin 23%. Það er staðfesting á því — og allir eru orðnir sammála um það — að fara þurfi að fara í þessar framkvæmdir samhliða, stofnvegaframkvæmdirnar og almenningssamgöngurnar.

Alþjóðlegum skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum verður ekki náð nema dregið verði úr umferð bifreiða og að fleiri nýti sér almenningssamgöngur, hjólastíga eða göngustíga. Byggja þarf upp gæðaalmenningssamgöngur sem eru raunhæfur valkostur við einkabílinn. Markmiðið með borgarlínu er að bjóða fram samkeppnishæfan valkost fyrir ferðir einstaklinga innan höfuðborgarsvæðisins og stuðla þannig að minni aukningu bílaumferðar, setja aukið framlag til stofnstígakerfis hjólreiða og göngu og efla samgöngur innan höfuðborgarsvæðisins almennt.

Brýnt er að hraða uppbyggingu borgarlínu í ljósi mikillar uppbyggingar íbúða á höfuðborgarsvæðinu sem og vaxtarsvæðum. Er rétt að vísa þar í tillögu starfshóps ríkis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins í húsnæðismálum, sem nýlega var sett fram, þar sem lögð er áhersla á þessa þætti.

Miðað er við að lega borgarlínu styðji við og svari auknum kröfum um samgöngur, m.a. við þéttingu byggðar en líka út frá því sem ég kem aðeins inn á í lokin. Þar við bætist að breyttar ferðavenjur verða sífellt mikilvægari út frá umhverfislegum sjónarmiðum.

Við þurfum að skilgreina nýja tekjustofna ríkis og sveitarfélaga. Dæmi um slíka tekjustofna eru gjaldtaka af umferð í formi einhvers konar veggjalda, kolefnisgjalda og jafnvel innviðagjalda til sveitarfélaganna. Nýir tekjustofnar eru nauðsynlegir til að bæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, en slíkt yrði aðeins gert í samvinnu og með stuðningi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Ákvörðun til að mynda um innheimtu veggjalda, svokallaðra borgargjalda, sem hafa áhrif á hegðun fólks, minnka umferð og hvetja til almenningssamgangnanotkunar, verður ekki tekin af ríkinu einu saman. Ákvörðunin verður aðeins tekin í samvinnu og með stuðningi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Tilgangur slíkrar gjaldtöku er að markmið í loftslagsmálum náist, að samgöngur hér á svæðinu verði skilvirkari og öruggari. Það er vilji hjá ríkisstjórninni til að viðræður um slíkt geti hafist sem fyrst.

Varðandi almenningssamgöngur á landsbyggðinni, ekki síst á vaxtarsvæðunum, er markmiðið að styrkja almenningssamgöngur og tryggja að fjármunir nýtist sem best. Unnið er að heildstæðri stefnumótun í almenningssamgöngum á öllu landinu, fyrir samgöngur bæði í lofti, landi og á sjó. Markmiðið er að leiðarkerfi samgöngumátanna þriggja, þ.e. ferju, flugs og almenningsvagna, tengist með ásættanlegum hætti og tryggi þannig skilvirkara og heildstæðara net almenningssamgangna um land allt. Skoða þarf leiðir til að bæta upplýsingakerfi allra almenningssamgangna, auk eflingar innviða núverandi kerfa, þ.e. stoppistöðvanna og ekki síst samgöngumiðstöðvanna. Með öðrum orðum þarf að finna einfalt kerfi. Víða eru fyrirmyndir í öðrum löndum að því verkefni.

Með slíkum aðgerðum og stefnumótun verður lagður grunnur að sterku og heildstæðu almenningssamgöngukerfi á öllu landinu sem tryggja mun með sem bestum hætti (Forseti hringir.) gott aðgengi og jafna aðstöðu íbúa, hvar sem þeir búa, svo sem kostur er.