149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[16:33]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. Verði frumvarpið að lögum verður meginreglan um að þjónustuveitendur, oftast hýsingaraðilar, beri ekki ábyrgð á gögnum sem þeir hýsa ekki lengur bundin því skilyrði að þeir fjarlægi eða hindri aðgang að gögnum eftir að hafa fengið tilkynningu um meint brot á ákvæðum höfundalaga. Eftir breytinguna þarf að koma til bein vitneskja hýsingaraðila um að um sé að ræða ólöglega starfsemi eða upplýsingar svo að þeir geti borið ábyrgð á efni gagna sem þeir hýsa. Í 12. og 13. gr. laganna kemur fram áðurnefnd meginregla um ábyrgð á takmörkun hýsingaraðila vegna gagna sem hann hýsir fyrir aðra.

Í 14. gr. laganna koma síðan fram mikilvægar undantekningar frá meginreglunni og í 2. mgr. 14. gr. kemur nú fram að þjónustuveitandi sem hýsir gögn ber ekki ábyrgð á þeim að því tilskildu að hann fjarlægi þau eða hindri aðgang að þeim fái hann tilkynningu um að gögn feli í sér meint brot gegn höfundalögum. Ber þá þjónustuveitanda að fjarlægja þau eða hindra aðgang að þeim að viðlagðri refsingu og skaðabótaábyrgð. Þetta ákvæði felur þannig í sér að ekki þarf að vera til staðar nein staðfesting á því að um brot á höfundalögum sé að ræða heldur nægir tilkynning ein og sér.

Frumvarpið, sem ég mæli hér fyrir, var samið af nefnd sem forsætisráðherra skipaði í mars síðastliðnum. Samkvæmt skipunarbréfi nefndarinnar skal hún áfram vinna með og leggja frekara mat á þau mál sem stýrihópur mennta- og menningarmálaráðuneytisins vann að í kjölfar samþykktar þingsályktunar um að Ísland skapaði sér afgerandi lagalega stöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Þær takmarkanir á tjáningarfrelsi sem 2. mgr. 14. gr. laga um rafræn viðskipti felur í sér verður að telja óþarfar og of íþyngjandi. Mikilvægt er að árétta að hagsmunir höfundaréttarhafa verða eftir sem áður nægilega vel tryggðir með sérákvæðum höfundalaga um lögbann við athöfnum sem fela í sér ólögmæta notkun eða dreifingu á höfundaréttarvörðu efni.

Þá er einnig ljóst að sú breyting sem lögð er til í frumvarpinu leiðir til þess að þegar um augljóst brot á höfundalögum er að ræða, líkt og með rekstri skráarskiptavefsíðna, eða með aðgangi að slíkum, mun ábyrgðartakmörkunin ekki eiga við. Þá hefur Hæstiréttur í nýlegum dómum fallist á staðfestingu lögbanns á aðgangi að slíkum síðum á grundvelli ákvæða höfundalaga. Mögulegar áhyggjur höfundaréttarhafa af þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpinu eru því óþarfar þó þær áhyggjur séu fullkomlega skiljanlegar, enda höfundum mikilvægt að vernda hugverk sín. Eftir breytinguna verður ákvæðið í fullu samræmi við Evrópurétt, sem og löggjöf í nágrannaríkjum okkar, sem tryggir hagsmuni höfundaréttarhafa með jafntryggum hætti.

Tjáningarfrelsið er eitt grundvallargilda í frjálsu og lýðræðislegu samfélagi og nýtur verndar samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar. Öllum þeim sem er annt um lýðræðislegt samfélag ber að gæta þess sérstaklega að ekki séu lagðar óþarfa hömlur á það frelsi, enda er vandséð að lýðræðið geti þrifist án tjáningarfrelsis. Allar hömlur á því verða því að vera á grundvelli ríkra almannahagsmuna og háðar stöðugu endurmati. Það var mat nefndarinnar, og ég tek undir það mat, með flutningi þessa frumvarps — að undangengnu mati á undirliggjandi hagsmunum höfundaréttarhafa annars vegar og samfélagsins hins vegar af mögulegri misnotkun ákvæðisins, sem alltaf verður að telja fyrir hendi með ákvæðið í því horfi sem það nú er — að rétt sé að leggja til við Alþingi að því verði breytt á þann veg sem frumvarpið felur í sér.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málið gangi til 2. umr. og til meðferðar hv. efnahags- og viðskiptanefndar.