149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

512. mál
[19:24]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns fagna þessu frumvarpi sem hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra leggur hér fram. Ég tel að á ferð sé afar mikilvægt mál hvað það varðar að við séum að senda skýr skilaboð, ekki bara út í íslenskt samfélag heldur út í alheimssamfélagið. Við ákveðum að ganga lengra en Evróputilskipanirnar segja til um og það finnst mér afar mikilvægt. Íslendingar eiga að mínu viti að vera þjóð sem tekur umhverfislegt hlutverk sitt alvarlega, tekur það alvarlega að ganga á undan með góðu fordæmi, eins og við gerum til að mynda í sambandi við orkugjafa. Ég held því að frumvarpið sé gríðarlega mikilvægt og fagna því sérstaklega. Ég tel að þingið eigi að reyna að klára þetta mál fljótt og vel, en vildi fyrst og síðast nota þetta tækifæri til að fagna þessu máli og hrósa hæstv. ráðherra fyrir framgönguna.