149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

uppbygging fjármálakerfisins.

[10:46]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Að undanförnu hefur verið talað mikið um ýmiss konar fyrirhugaðar hugmyndir um breytingar á uppbyggingu fjármálakerfisins og fleira í þeim dúr og ýmsar spurningar vakna sem mér finnst mikilvægt að við fáum svarað. Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra fjögurra spurninga sem eru allar þess eðlis að það geta bara verið tveir möguleikar í stöðunni. Ég vona að hann geti hjálpað mér að skilja þessa hluti.

Fyrsta spurningin er: Hvort eru stjórnir bankanna, sem eru í ríkiseigu, svo sjálfstæðar í störfum sínum að ómögulegt hefði verið fyrir fjármálaráðherra eða einhvern annan í keðjunni að geta með nokkru móti haft áhrif á söluna á Borgun á sínum tíma, eða eru stjórnir bankanna svo ósjálfstæðar að þeir geta ekki verið í samkeppnisrekstri hver við annan?

Önnur: Hvort er tækifæriskostnaðurinn af því að vera með 420 milljarða ríkiseign í bönkunum svo gríðarlegur að losa verði um þá eign til að koma í veg fyrir efnahagslegt slys, eða er nauðsynlegt að setja um 500 milljarða í fjárfestingarsjóð til að koma í veg fyrir efnahagslegt slys?

Þriðja: Hvort er bankaregluverk á Íslandi orðið svo gott að engin ástæða er til að óttast annað bankahrun, eða er það svo hættulegt að ríkið eigi eignir í bönkunum að eðlilegt sé að hæstv. fjármálaráðherra losi um þá eignarstöðu áður en annað hrun á sér stað?

Fjórða: Hvort eru ríkisskuldir orðnar svo lágar að mögulegt sé að fara í fjárfestingar á innviðum á borð við vegakerfið sem hafa setið á hakanum árum saman, eða er staða ríkissjóðs svo slæm að eingöngu er hægt að sinna nauðsynlegum gatnaframkvæmdum með því einu að taka upp nýtt og umdeilt gjaldtökukerfi í formi veggjalda?

Það væri gott að fá einhvers konar innlegg við þessum spurningum.