149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

ÖSE-þingið 2018.

527. mál
[14:15]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir fór ákaflega vel yfir það starf sem við í Íslandsdeild ÖSE höfum innt af hendi og ég hef í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta.

Þetta er að mörgu leyti sérstakur vettvangur, þangað koma fulltrúar frá 57 þjóðþingum í Evrópu, Norður-Ameríku og Mið-Asíu og þarna koma saman á fjórða hundrað þingmenn frá þeim löndum. Þetta er þar af leiðandi mjög góður vettvangur fyrir menn að skiptast á skoðunum, bæði formlega og óformlega.

Eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir vék að erum við með þrjár eigin nefndir sem starfa þarna og ég tek þátt í starfi 3. nefndar, sem fjallar um lýðræðis- og mannréttindamál. Á fundi nefndarinnar í Vínarborg, þ.e. þeirrar nefndar sem fjallar um lýðræðis- og mannréttindamál, var sérstaklega fjallað um fjölmiðla og fjölmiðlun á dögum falsfrétta, eða sem kalla mætti kannski tröllasögur, sem við vitum að er gríðarlegt vandamál í bæði upplýsingaöflun almennings og innrætingu almennings á ranghugmyndum, tröllasögum.

Það var sérstaklega fjallað um þetta, annars vegar í minni nefnd og svo var hins vegar fjallað sérstaklega um jafnréttismál og þar ávarpaði nefndina m.a. framkvæmdastjóri Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE, ODIHR, sem er okkur að góðu kunn, fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Hún lagði í máli sínu áherslu á að auka hlut kvenna í stefnumótun og þar sem mætti byggja á valdeflandi áhrifum #metoo-hreyfingarinnar.

Þar fóru líka fram umræður utan dagskrár, ágætar umræður, en mér er þó kannski minnisstæðast frá þessum fundum þegar varaforseti norska þingsins, sem heitir Abid Qayyum Raja og er annarrar kynslóðar innflytjandi í Noregi, flutti ávarp á þinginu. Hann fjallaði sérstaklega um baráttuna gegn róttækni meðal múslima í Evrópu. Hann sagði að rót hryðjuverkavandans í Evrópu væri misheppnuð aðlögun innflytjenda og kvað býsna fast að orði með það, tók m.a. dæmi af sínum eigin uppvexti í Noregi, honum hefði verið kennt að skammast sín fyrir tilfinningar sínar, og hann hefði upplifað ofbeldi bæði heima fyrir og í moskunni og fengið þau skilaboð frá skólanum sínum að hann myndi aldrei ná langt í lífinu. Hann talaði um hvernig blanda úr þessu getur orðið eitruð blanda sem skapar mjög frjóan jarðveg fyrir boðskap öfgahópa.

Það var einnig merkilegt að upplifa á fastafundinum í Berlín í júlí og sjá með eigin augum þau miklu átök sem geisa í rauninni í Evrópu og á alþjóðavettvangi milli Rússa og margra annarra þjóða, náttúrlega ekki síst Úkraínumanna. Meginviðfangsefni fundarins má segja að hafi verið átök í Úkraínu og í Nagorno-Karabakh, mannréttindabrot í Rússlandi, málefni barna á flótta og barátta gegn kynbundnu ofbeldi.

Eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir vék að voru samþykktar aukaályktanir af ýmsu tagi og þessar aukaályktanir með ályktununum mynda saman Berlínaryfirlýsingu ÖSE. Á meðal þessara aukaályktana snerust tvær um Rússland, mannréttindabrot í Rússlandi og mannréttindabrot á Krímskaga. Sérstaklega var fjallað um málefni hinsegin fólks í Rússlandi. Eins og Bryndís vék að áðan börðust fulltrúar Rússa með oddi og egg gegn því að þessar aukaályktanir kæmust á dagskrá og gengu síðan á dyr þegar þær voru samþykktar.

Meðal þess sem kom fram í málflutningi Rússa var að hatursorðræða væri ekki síður mikið vandamál í Svíþjóð en í Rússlandi og tilgreindu þeir þá sérstaklega uppgang nýnasista þar, sem má til sanns vegar færa að er vandamál. Ekki er hægt að segja að uppgangur nýnasista sé studdur af sænskum stjórnvöldum eins og ofsóknir á hendur hinsegin fólki eru studdar af rússneskum stjórnvöldum. Mér eru líka minnisstæð orð eins rússnesks þingmanns þegar hann sagði að Rússland væri fjölmenningarlegt land, þar ættu nánast öll trúarbrögð heimsins sér sína fulltrúa og að öll trúarbrögð heimsins héldu á lofti fjölskyldugildum og væru andvíg samkynhneigð. Þess vegna væri það fjölmenning að vera andvígur samkynhneigð. En þeir sem sé enduðu á því að ganga á dyr, en taka vonandi áfram þátt í störfum ÖSE.

Áberandi var á þinginu að fjallað var um kynbundið ofbeldi. Eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir vék að áðan leitumst við, sem erum fulltrúar Íslands á alþjóðavettvangi, við að halda á lofti þeim gildum sem lúta að jafnrétti. Ég hélt ræðu þar sem ég sagði frá vinnu Alþingis við að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni og ofbeldi innan þingsins og sagði frá því hvernig íslenskar konur hefðu árið 2017 deilt sögum af kynferðislegri áreitni og ofbeldi á netinu undir merkjum #metoo.

Þeim sjónarmiðum var einnig haldið á lofti á ráðstefnu í Kirgisistan, sem ég átti ekki kost á að sækja vegna þess að ég sinnti kosningaeftirliti í Bandaríkjunum á vegum ÖSE, en þar sagði formaður nefndarinnar, Gunnar Bragi Sveinsson, (Forseti hringir.) að þátttaka kvenna í samfélaginu og efnahagslífinu væri forsenda velgengni ríkja. Þátttaka og öryggi allra borgaranna væri forsenda pólitísks og efnahagslegs stöðugleika og hann sagði baráttuna fyrir jafnrétti kynjanna vera erfiða að mörgu leyti vegna þess að sumir karlar skildu hana ekki.