149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

NATO-þingið 2018.

524. mál
[14:48]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir yfirferðina á þessari skýrslu, hún er ítarleg eins og fram kom í máli hans. Hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hjálpaði mér við hluta af því sem ég ætlaði að ræða, það er ágætt, ég get þá snúið mér að öðru.

Í skýrslunni er fjallað um fræðslu til ungmenna í löndum NATO, hvað NATO er að gera og hver sé tilgangur þess. Hvernig er þessu háttað hjá okkur? Er einhver vinna farin af stað í þessu? Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur öll, hvort sem við erum gömul eða ung, ég tala nú ekki um þá sem taka við í framtíðinni, að menn geri sér grein fyrir því hversu mikilvægt það er fyrir okkur að vera í NATO í þeirri breyttu heimsmynd sem er fram undan.

Hv. þingmaður kom inn á alla þá umferð sem á eftir að verða norðan við okkur. Ég verð að geta þess líka að hv. þingmaður hefur verið óþreytandi í vinnu sinni við að miðla upplýsingum til okkar varðandi þá tækni sem er fram undan hvað snertir eftirlit á heimshöfunum með gervihnöttum og þess háttar. Það væri einnig fróðlegt ef hann hefði tök á að koma aðeins inn á þær hugmyndir sem hann hefur þar uppi og það sem verið er að ræða innan NATO.