149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

NATO-þingið 2018.

524. mál
[14:50]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er um ár síðan sett var af stað vinna í NATO-þinginu og það er mikill áhugi meðal þingmanna þar á því að fram fari betri fræðsla um málefni NATO og NATO-þingsins, bara almennt um NATO og tilgang þess í heiminum.

Eftir að kalda stríðinu lauk um 1990 slaknaði töluvert mikið á þessari þekkingu og hún er mjög takmörkuð meðal yngra fólks, sérstaklega í Bandaríkjunum, Kanada og í Vestur-Evrópu. Það kemur í ljós að íbúar Austur-Evrópu eru ágætlega að sér um málefni NATO. Það er kannski af nauðsyn vegna þess að þar skynjar fólk allt aðra ógn en vesturhluti Evrópu af Rússlandi. Það er bara þannig, þar er þessum málum tekið mjög alvarlega.

Tilgangurinn með vinnunni í þeim hópi sem ég sit í er að huga að því hvað hægt er að gera til að reyna að kynna starfsemi NATO og NATO-þingsins betur fyrir almenningi í þessum löndum. Ég hygg að það sé full nauðsyn á Íslandi að kynna þetta betur. Við kölluðum fyrir nefndina í vetur Silju Báru Ómarsdóttur við Háskóla Íslands sem hefur gert rannsókn, sem kynnt var síðasta sumar, á þekkingu Íslendinga á starfsemi NATO. Hún er lítil og hefur gefið töluvert eftir á síðustu árum. Þetta er mjög mikilvægur þáttur og ég held að við þurfum að efla þekkingu fólks á þessari starfsemi. Tilgangur þessa starfshóps er að fara í þá herferð að kynna NATO.