149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

skattkerfið.

[15:03]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Vinstri og hægri flokkar hafa í grundvallaratriðum ólíka sýn á skatta. Hægri flokkar líta á þá sem illa nauðsyn til tekjuöflunar á meðan vinstri flokkarnir líta á þá sem mikilvægt tæki til að jafna lífskjör. Þá er nauðsynlegt að endurhugsa skattkerfi framtíðarinnar. Stafræna byltingin er að breyta samfélagi okkar. Færri hendur mun þurfa til framleiðslu og hætta er á að hlutfall auðs fjármagnseigenda og þeirra sem eiga fyrirtækin geti margfaldast og að ójöfnuður aukist gríðarlega.

Ekki óvænt stíga nú fram færustu sérfræðingar á þessu sviði og tala fyrir nauðsyn þess að setja háan skatt á þá allra ríkustu.

Hér eru hins vegar lágir skattar af fjármagnstekjum í samanburði við önnur OECD-ríki. Ólíkt því sem verið hefur síðustu ár talar hæstv. forsætisráðherra nú um breiða sátt og gerir slíkar málamiðlanir við hægri sinnaðasta flokkinn á þingi að erfitt er að greina stefnu VG í framkvæmd.

Því langar mig að heyra hvort hæstv. forsætisráðherra sé orðin fráhverf hækkun tekjuskatts á ofurlaun og auðlegðarskatti á moldríkt fólk. Einnig langar mig að heyra um viðhorf ráðherra til fjölþrepaskatts sem ASÍ hefur lagt til en fjármálaráðherra vísað á bug og ASÍ þurft að leiðrétta rangfærslur hans.

Í þriðja lagi hafa auðlindagjöld verið lækkuð. Ríkið hefur veikt tekjustofn sinn og ræður ekki við nauðsynlega uppbyggingu innviða. Þrátt fyrir að skattar hafi hækkað á lægstu launin og á meðan byrði þeirra tekjuhærri hefur verið að minnka síðustu ár er nú fyrirhugað að láta notendur borga uppbyggingu samgöngumannvirkja í stað þess að fjármagna þau með almennri skattheimtu. Það mun leggjast þyngra á þau sem lægst hafa launin. Nú eiga þau að borga sem nota í stað þess að þau greiði sem geta.

Getur hæstv. forsætisráðherra á tveimur mínútum gert grein fyrir þessari stefnubreytingu Vinstri grænna?