149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

skattkerfið.

[15:07]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Já, það væri fróðlegt að ræða bensíngjöldin. Eiga þau að halda sér og þá líka taka kílómetragjöld og veggjöld? Á sem sagt að íþyngja þeim í samfélaginu sem síst hafa efni á því að endurnýja í rafmagnsbíl? Eigum við að gera það? Það væri fróðlegt að vita það.

Ég ætla ekki að gera lítið úr því að ýmislegt hefur verið gert, en allt of lítið. Varla væri ASÍ að kalla eftir meiri sátt um skattkerfisbreytingar ef það hefði séð ljósið um áramótin og komist að því að allt væri eins og best verður á kosið. Það er rétt að fjármagnstekjuskattur hefur hækkað úr 10% í 20%, og nú í 22% fyrir ári, en þrátt fyrir það erum við enn meðal lægstu þjóða. Ég skal líka koma með hæstv. forsætisráðherra í að skoða undanþágur vegna þess að við þurfum að verja þá sem eiga eitthvað smávegis í sparnaði og örlítið til efri áranna. En við eigum ómögulega að fara að verja fólk sem á hundruð milljóna eða jafnvel tugi milljarða á bankabókum sínum.