149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

staða Íslands gagnvart ESB.

[15:15]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir. Ég tók nú orð hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar trúanleg þegar hann bað mig ekki um að lýsa beinni afstöðu til óframkominnar þingsályktunartillögu. Ég ætla að spara mér fagnaðarlætin en vil þó segja að ég held að við getum dregið mjög mikinn lærdóm af öllu því sem gerðist í kringum Evrópusambandsumsóknina og líka af því þegar hún var dregin til baka, því að þá var auðvitað líka óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um afstöðu fólks til Evrópusambandsins. Í kringum það að umsóknin var afturkölluð var raunar mikil krafa uppi um að leita eftir afstöðu þjóðarinnar.

Ég ætla að láta mér nægja að segja að ef þessi þingsalur gæti sammælst um að leita leiðsagnar þjóðarinnar áður en nýjar ákvarðanir eru teknar held ég að það væri farsælt fyrir þjóðina. Sjálf hef ég ekki breytt þeirri skoðun (Forseti hringir.) að ég tel enga ástæðu til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu. En ég hef líka alltaf lýst þeirri skoðun að ég er reiðubúin að leita leiðsagnar þjóðarinnar ef vilji þingsins stendur til þess að fara aftur í þessa vegferð. Minn vilji stendur ekki til þess.