149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

Brexit.

[15:21]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Nú fara að renna á mig tvær grímur. Ég er nefndarmaður í utanríkismálanefnd þingsins og ég hef óskað eftir því að á miðvikudaginn komi utanríkisráðuneytið til þess að fara yfir þetta. Ég verð að segja eins og er að það er eins og ekkert plan sé í gangi. Brexit er líklega eftir sjö vikur. Ekkert almennilegt plan er í gangi. Fyrirspurnum okkar þingmanna frá Viðreisn, m.a. um sjávarútvegsmálin, er ekki svarað. Hvorki dómsmálaráðherra né utanríkisráðherra svara neinu er tengist Brexit. Æ ofan í æ er bara beðið um frest úr forsetastól.

Hefur ríkisstjórnin ekki unnið heimavinnuna sína í þessu máli? Gríðarlegir íslenskir hagsmunir eru í húfi. Ég vil fá að vita: Var eitthvað undirritað þegar rætt var við Theresu May um þessi mál? Það er örugglega fínt að spjalla við hana en var eitthvað undirritað?

Og síðan til viðbótar því sem ég hef verið að segja og við í Viðreisn viljum segja, með tilliti til þess sem kom fram hér á undan er tengist ESB og hugsanlega aðild okkar að ESB, eigum við að sjálfsögðu (Forseti hringir.) að treysta þjóðinni til að greiða atkvæði um samning en ekki eitthvert óljóst rugl eins og við sjáum í Bretlandi. Íslenska þjóðin á skilið að fá (Forseti hringir.) samning um aðild að Evrópusambandinu og við eigum að treysta henni til að greiða atkvæði um slíkan samning.