149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

vandi ungs fólks á húsnæðismarkaði.

[15:46]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félags- og barnamálaráðherra fyrir að taka þátt í þessari umræðu um brýnt úrlausnarefni. Eitt af grundvallar skylduverkum stjórnvalda hverju sinni er að búa svo um hnútana að fólk geti stofnað og átt heimili, án þess að því fylgi ævilöng skuldaánauð og án þess að þurfa að greiða of hátt hlutfall af tekjum sínum í húsnæðiskostnað, hvort sem um er að ræða greiðslur til lánastofnana eða leigusala.

Íslenskum stjórnvöldum hefur gengið illa í gegnum tíðina að uppfylla þessar einföldu grunnþarfir. Eins og sakir standa búa í kringum 45% fólks á aldrinum 18–29 ára í foreldrahúsum. Þetta unga fólk nær ekki að safna fyrir útborgun í íbúð því að tekjurnar gefa ekki svigrúm fyrir sparnað á sama tíma og leiguverð fer hækkandi. Þar að auki hefur húsnæðisverð hækkað sífellt umfram kaupmátt, sem gerir að verkum að upphæðin sem þarf til að fá húsnæðislán hjá bönkunum hækkar sífellt.

Lánagleði bóluáranna hefur breyst í lánaógleði eftirhrunsáranna. Um 1.200 stúdentar eru á biðlista eftir húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Eftirspurn eftir stúdentaíbúðum hefur vaxið með sífellt óhagkvæmari leigumarkaði, en þess má þó geta að Reykjavíkurborg hefur ráðist í umfangsmikla uppbyggingu á stúdentaíbúðum sem rísa nú í stórum stíl, þar á meðal í Vatnsmýrinni þar sem stærstu stúdentagarðar landsins eru að rísa.

En það þarf fleira til. Eftir sem áður er húsnæðisvandinn kerfislægur og til kominn af stefnu stjórnvalda mörg undanfarin ár. Íslendingar hafa rekið eindregnari séreignarstefnu í húsnæðismálum en tíðkast víða annars staðar. Það er gott og blessað að fólk fái tækifæri til að eignast eigið heimili og eigið húsnæði. En hitt er verra að eftir að Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn stigu það óheillaskref að leggja niður verkamannabústaðakerfið, sem gerði efnalitlu fólki kleift að eignast þak yfir höfuðið með niðurgreiddum vöxtum, hefur ekki fundist leið til að taka á húsnæðisvanda þeirra sem ekki geta reitt fram háar upphæðir í stofnfé.

Það kemur sérstaklega illa við ungt fólk sem ætlar að stofna heimili. Það er nánast rekið út á guð og gaddinn nema það hafi fjársterkan bakhjarl, foreldra sem geta lagt fram fé. Séreignarstefnan birtist líka á leigumarkaði. Framboð á slíku húsnæði er í meira mæli í einkaeigu hér en víðast hvar annars staðar. Það er starfrækt og rekið með gróðasjónarmið að leiðarljósi.

Hin seinni ár hafa fjársterkir aðilar svo haslað sér völl á leigumarkaðnum og nánast haft sjálfdæmi um kjör leigjenda.

Afleiðingin af stefnu okkar er sú að ungt fólk kemst ekki að heiman, unnvörpum. Það býr í gamla herberginu sínu, býr í kjallaranum, býr úti í bílskúr, jafnvel með sínar eigin fjölskyldur. Úrræðin sem stjórnvöld hafa svo boðið upp á snúast meira og minna um ráðstöfun á séreignarsparnaði, þ.e. það unga fólk sem á annað borð hefur nægar tekjur til að leggja eitthvað fyrir skal þá ráðstafa fyrir fram þeim sparnaði til að eignast heimili. Því er með öðrum orðum boðið að taka allra náðarsamlegast lán hjá sjálfu sér.

Tölur sýna svo að einungis um helmingur leigjenda er yfirleitt með séreignarsparnað.

Virðulegi forseti. Átakshópur hefur nýlega skilað tillögum í húsnæðismálum sem eru að mörgu leyti áþekkar tillögum Samfylkingarinnar um aðgerðaáætlun í húsnæðismálum sem er nú til meðferðar í hv. velferðarnefnd. Þarna eru margar fínar hugmyndir og ef stjórnvöld fylgja þeim eftir og fjármagna myndi ástandið í húsnæðismálum batna til langframa.

En það er samt sem áður fátt þarna að finna sem aðstoðar ungt fólk sem er í vandræðum núna, ungt fólk sem hefur jafnvel verið lengi í vanda. Við höfum lagt til að koma hér á startlánum að norskri fyrirmynd. Við viljum hækka húsnæðisbætur og gefa ungu fólki og öryrkjum sem deila húsnæði kleift að sækja slíkar bætur.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig honum lítist á þessar hugmyndir okkar um startlán og hærri húsnæðisbætur.