149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

vandi ungs fólks á húsnæðismarkaði.

[15:59]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. þingmanni fyrir þessa mikilvægu umræðu. Þetta er stór og mikil umræða og erfitt að fara yfir margt á tveim mínútum en við fáum svo síðar tækifæri í dag til að ræða húsnæðismálin frekar undir fyrirspurnum.

Það sem við þurfum að leggja áherslu á varðandi þennan málaflokk núna eru upplýsingar, upplýsingaöflun og að tryggja upplýsingagjöf til ungs fólks sem vill fara inn á húsnæðismarkaðinn. Hver er munurinn á því að kaupa sér fasteign á þessu svæði á móti öðru og af hverju er þessi munur? Hvert er framboðið? Svara þarf þessum spurningum án þess að hver og einn þurfi að fara að leggjast í miklar rannsóknir á því hvar sé hagstæðast að kaupa. Og svo að upplýsa líka um hvaða úrræði eru í boði. Ég er ekkert viss um að allt ungt fólk viti um öll þessi lagatæknilegu úrræði sem það hefur eins og séreignarsparnaðinn og hvernig það getur nýtt sér hitt og þetta.

Við þurfum svolítið að leyfa þeim að uppfylla sínar væntingar með því að fá upplýsingar, þau viti hvaða væntingar þau geti haft um húsnæði og hvernig þau geti látið þessar væntingar rætast og hvaða úrræði eru til þess.

Einnig þurfum við að hugsa þetta enn þá fyrr fyrir þá sem eru að koma hingað og fara í háskóla eða eru að flytja utan af landi, ungt fólk sem vill fara að standa á eigin fótum og lifa sínu sjálfstæða lífi. Ég held að í lánasjóðskerfinu og varðandi húsaleigubætur og annað þurfi að rýmka reglurnar þannig að það geti kannski leigt hjá afa og ömmu eða öðru eldra fólki. Þá fær eldra fólkið félagsskap í sínu húsnæði, þarf ekki að uppfylla strangar kröfur um að vera með séríbúð og annað slíkt, og unga fólkið getur búið hjá einhverjum sem býr kannski einn í stóru húsnæði en það fái samt námslánin sín eða húsaleigubæturnar og annað. Það eru mörg svona úrræði sem við þurfum líka að hafa í huga. — Núna eru tvær mínútur búnar. Takk.