149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

vandi ungs fólks á húsnæðismarkaði.

[16:08]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér um vanda ungs fólks á húsnæðismarkaði. Áður en lengra er haldið langar mig að horfa pínulítið um öxl og spyrja sem svo: Hvernig í veröldinni stendur á því að við erum komin í þennan hrikalega vanda? Hvernig stendur á því að það vantar þúsundir og aftur þúsundir íbúða? Hvernig stendur á því að við gerum unga fólkinu okkar ekki mögulegt að koma sér þaki yfir höfuðið heldur tökum við á því þannig að við horfum á eftir mannauði okkar flýja land?

Ég vil hins vegar þakka fyrir það sem starfshópur forsætisráðherra leggur fram hér og nú því að það er ákaflega jákvætt að mörgu leyti. En er ekki ástæða til að líta á það sem er einn grundvallarvandinn í því að ungt fólk geti staðið í því að fjárfesta í fasteign? Þá er ég ekki að tala um fasteignirnar sem verið er að byggja núna sem kosta það mikið að það er ekki nema fyrir auðkýfinga yfir höfuð að kaupa sig þangað inn. Það er mjög lítill hluti af nýbyggingum sem er mögulegt fyrir ungt fólk að fjárfesta í. Mig langar til að tala um verðtrygginguna sem hefur kostað heimili þessa lands og fyrirtæki um 118 milljarða kr. á síðustu fimm árum. Einungis húsnæðisliður vísitölunnar hefur kostað heimilin og fyrirtækin 118 milljarða kr. Hvað er það, virðulegi forseti, sem stendur svo þversum hér í þessum þingsal að ekki sé mögulegt að afnema og taka út þennan húsnæðislið?

Ég stóla á það að hæstv. velferðarráðherra, félagsmála og barnaheilla, sjái um að þessi húsnæðisliður fari út til að gefa unga fólkinu okkar tækifæri á því að geta a.m.k. staðið við skuldbindingar sínar þegar kemur að því að skuldsetja sig upp í rjáfur ef það er þá yfir höfuð mögulegt til að eignast þak yfir höfuðið.