149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Kynferðislegt ofbeldi og áreitni ásamt kynbundnu ofbeldi er djúpstætt og víðfeðmt þjóðfélagsmein. Nýleg dæmi sýna það glöggt. Í vor sem leið voru samþykktar breytingar á almennum hegningarlögum og nauðgunarhugtakið skilgreint út frá skorti á samþykki. Með breytingunni var stigið mikilvægt skref til að veita kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga aukna réttarvernd. Hefur í daglegu tali verið talað um samþykkisreglu, þ.e. að samræði eða önnur kynferðismök geta varðað refsingu ef skýrt samþykki til þátttöku í kynferðislegri athöfn liggur ekki fyrir.

Ný skilgreining á nauðgun í hegningarlögum var þýðingarmikil fyrir margra hluta sakir. Meðal annars getur vitneskja um að samþykki sé aðalatriðið í kynferðislegum samskiptum vonandi fækkað þessum brotum. Það er auðvitað mikilvægast að koma í veg fyrir brotin. Lögin lifa hins vegar ekki í tómarúmi og breytingunni þarf að fylgja eftir með fræðslu og forvörnum. Gæða þarf lagareglurnar lífi. Sá sem hér stendur hefur þess vegna lagt fram þingsályktunartillögu sem gerir ráð fyrir að tekin verði upp markviss fræðsla um kynjafræði, kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum, sem nái til sem flestra þátta samfélagsins og að til þess verði varið nægu fjármagni. Tillagan gerir ráð fyrir að fyrstu þrjú árin verði tryggðar a.m.k. 150 millj. kr. til fræðslunnar og þungi lagður í gerð efnis og miðlunar þess. Sjónum verði beint að öllum skólastigum og öllum stofnunum réttarvörslukerfisins. Þá verði sérstök áhersla lögð á að styrkja frjáls félagasamtök, fjölmiðla og stofnanir til miðlunar fræðslu og sérstakra herferða og sjónum verði beint að skilgreindum (Forseti hringir.) markhópum samfélagsins enda mikilvægt að styðja við þá sem leggja þessum málefnum lið með mikilvægu starfi og sérþekkingu.

Herra forseti. Ég skora á þingheim að veita þessu brýna máli brautargengi.