149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[14:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019–1923 og tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033, frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.

Þingsályktunartillögurnar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019–2023 og samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033 eru lagðar fram á grundvelli laga um samgönguáætlun, nr. 33/2008.

Nefndin fékk á sinn fund fjölmarga gesti eins og fram kemur í yfirliti í meirihlutaálitinu. Gestir voru einróma í þeirri afstöðu að gera þyrfti átak í vegaframkvæmdum um allt land, viðhaldi og nýframkvæmdum á öllum flokkum vega. Uppsafnaður vandi væri mikill og brýnt að framkvæmdahraði yrði meiri en áætlað er í samgönguáætlun. Bent hefur verið á að Ísland er strjálbýlt og vegakerfið umfangsmikið miðað við fólksfjölda og uppbygging þess hefur alla tíð verið á eftir nágrannalöndum okkar. Fjárfestingarþörf er talin vera í heild milli 350–400 milljarðar kr. Það verður einnig að líta til þess fjölda ferðamanna sem nú heimsækir landið á ári hverju, en eins og menn vita hefur þeim fjölgað mjög mikið á síðustu árum. Atvinnusvæði eru orðin stærri og fólki sem býr í dreifbýli og vinnur í þéttbýli fer fjölgandi. Meiri hlutinn telur brýnt að brugðist verði hratt við þeim vanda sem safnast hefur upp síðustu ár og unnið verði markvisst að því að bæta vegakerfið og samgöngur eins hratt og kostur er með tilliti til hagkvæmni, markmiða í loftslagsmálum, jafnræðis og öryggissjónarmiða. Mikilvægt er að leita leiða til að flýta brýnustu samgöngubótum sem mest. Bent var einnig á að hagvaxtarspá gerir ráð fyrir því að það losni núna um framleiðsluþætti og því geti verið að skapast kjöraðstæður til uppbyggingu innviða í samfélaginu.

Meiri hlutinn leggur sérstaka áherslu á að ýmsar tillögur í samgönguáætluninni og einnig breytingar á fjármögnunarleiðum tengdum henni eru mikilvægir þættir í skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum og liður í orkuskiptum. Styttri ökuleiðir, betri vegir, greiðari akstur með minni orkueyðslu, aukið farþegaflug með sparneytnum flugvélum innan lands á löngum eða örðugum leiðum, styrkar almenningssamgöngur og fleiri framfarir stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda. Einnig hefur komið fram að tekjur ríkisins af olíu- og bensíngjaldi munu minnka á næstu árum vegna þeirra breytinga sem eru að verða á bílaflota landsmanna og þeirra ráðstafana sem gripið hefur verið til til að auka umferð vistvænni farartækja.

Samgönguáætlun er lögð fram fullfjármögnuð í samræmi við samþykkta fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Ljóst er að samgönguáætlun er ætlaðir afmarkaðir fjármunir, eða um 190 milljarðar kr., þar af 160 milljarðar kr. í viðhald og vegaframkvæmdir á næstu fimm árum og taka framkvæmdir og framkvæmdahraði mið af því. Það er mikilvægt að finna leiðir til að hraða framkvæmdum. Samhliða vinnu við samgönguáætlun skipaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra þrjá starfshópa á mismunandi stigum vinnunnar. Þeim var ætlað að fjalla um þær áskoranir sem uppi eru í samgöngumálum og koma með tillögur að lausnum. Vinna starfshópanna hefur verið kynnt nefndinni og einnig hafa áskoranir og lausnir verið ræddar fyrir nefndinni.

Með hliðsjón af framansögðu leggur meiri hlutinn til breytingu á markmiði 5. töluliðar í kafla 4.3 í fimm ára samgönguáætlun á þá leið að þar komi fram með skýrum hætti að unnið skuli að útfærslu nýrra fjármögnunarleiða og nauðsynlegri frumvarpsgerð á yfirstandandi ári með það að markmiði að flýta framkvæmdum í áætluninni og skapa fjárhagslegt rými fyrir nýjar framkvæmdir. Lykilatriði þar, að mati meiri hlutans, er sú ætlan að jafnt lántaka sem innheimta veggjalda verði á forræði hins opinbera. Vegagerðin hefði eftir sem áður umsjón með framkvæmdum í vegakerfinu og þær yrðu hluti af samgönguáætlun. Beinir meiri hlutinn því til ráðherra að tryggja að tilteknar framkvæmdir verði fjármagnaður með sértækri gjaldtöku sem ráðherra útfæri í samræmi við áherslur meiri hlutans.

Meiri hluti gesta sem kom fyrir nefndina tók vel í hugmyndir um gjaldtöku á vegum og samgöngumannvirkjum ef slíkt gæti hraðað framkvæmdum og gjöld væru hófleg og tilgangur þeirra skýr. Meiri hlutinn leggur jafnframt áherslu á að gjaldtöku verði hagað á þann veg að jafnræðis sé gætt milli landsmanna og þeir gestir sem koma til landsins taki þátt í uppbyggingu samgöngukerfisins sem þeir njóta meðan á dvöl þeirra stendur, hvort sem er akandi á einkabílum, bílaleigubílum eða langferðabílum, og þá umfram almenn gjöld af akstri. Með breyttri fjármögnun í samgöngum, bæði á vegum og flugi, skapast svigrúm til að flýta framkvæmdum, auka notkunarmöguleika samgangna, stuðla að stórauknu öryggi í samgöngum og taka jákvæð skref í loftslagsmálum.

Umræða um veggjöld eða sérstök notendagjöld sem viðbót við almenna skattlagningu á umferð til að ráðast í eða flýta framkvæmdum er ekki ný af nálinni á Íslandi. Má í því sambandi benda á þá miklu og augljósu samgöngubót sem varð með tilkomu Hvalfjarðarganga, en gjaldtökuleiðin var forsenda þess að hægt var að ráðast í þá framkvæmd á sínum tíma. Göngin hafa nú verið greidd upp að fullu og þeim skilað til ríkisins og líkanið, í þessu tilviki með stofnun sérstaks sjálfstæðs félags, gengið upp. Hið sama má segja um forsendur fyrir byggingu Vaðlaheiðarganga þar sem gjaldtaka er hafin, en hún var einnig forsenda þess að sú framkvæmd komst í gagnið.

Þörf fyrir breytt fyrirkomulag skattlagningar eða gjaldtöku af umferð hefur einnig legið fyrir um árabil. Allt frá því að hafist var handa við að hvetja til notkunar umhverfisvænna orkugjafa með skattaívilnun, þ.e. að fella niður eða lækka aðflutningsgjöld af umhverfisvænum bílum og gera koltvísýringslosun að andlagi bæði aðflutningsgjalda og bifreiðagjalda, hefur ný framtíð blasað við í þeim efnum. Eftir því sem bílar knúnir rafmagni, metangasi, vetni eða öðrum vistvænum orkugjöfum verða æ stærri hluta bílaflotans eykst þörf fyrir nýja nálgun varðandi tekjuöflun í almennum gjöldum í þágu uppbyggingar og reksturs vegakerfisins. Samkvæmt aðgerðaáætlun í loftslagsmálum eru orkuskipti í vegasamgöngum tiltekin sem annað af tveimur mikilvægustu verkefnunum í að ná markmiðum stjórnvalda um kolefnishlutleysi árið 2040. Því er stefnt að því að hraða eins og kostur er orkuskiptum í samgöngum og hverfa frá notkun jarðefnaeldsneytis. Það verður ekki lengur undan því vikist að takast á við að afla tekna til viðbótar almennum gjöldum með nýjum hætti; ákvarða notkunargjöld eftir því sem eldra fyrirkomulag skilar minni tekjum til samgöngumála og málaflokka sem þeim tengjast. Meiri hlutinn ítrekar nauðsyn þess að ráðast í heildarendurskoðun almennrar gjaldtöku af umferð enda skal stefnt að því að hætta innheimtu sértækra gjalda þegar framkvæmdir hafa verið greiddar upp.

Samkvæmt þingmálaskrá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra er áætlað að leggja fram frumvarp til laga um gjaldtöku í samgöngum í marsmánuði 2019. Það er hugsað til þess að fylgja eftir stefnu um framtíðarfjármögnun vegakerfisins sem unnin var af starfshópi ráðherra um fjármögnun samgöngukerfisins. Meiri hlutinn telur mikil tækifæri felast í hugmyndum um veggjöld en með þeim megi auka og flýta samgönguframkvæmdum til hagsbóta fyrir samfélagið allt. Nánari útfærslur byggjast á því að viðbótarfjármögnun með veggjöldum nái fram að ganga og samkomulag náist fljótlega milli ríkis og sveitarfélaga um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Útfærslurnar, þar með taldar upphæðir veggjalda, verða unnar eftir samþykkt samgönguáætlunar og með hliðsjón af grunnhugmyndum um frekari fjáröflunarleiðir sem starfshópar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins leggja fram, m.a. í samvinnu við sveitarfélög.

Meiri hlutinn leggur áherslu á að gætt verði meðalhófs í ákvörðun um fjárhæð gjalds og þess gætt í hvívetna að fjárhæð veggjalds verði ekki hærri en svo að notanda verði tryggður ávinningur af nýrri framkvæmd þrátt fyrir veggjald. Þá verði litið til sjónarmiða um magnafslætti, þ.e. að þeir sem nota vegina mikið njóti afsláttarkjara eins og tíðkast hefur til að mynda í Hvalfjarðargöngum en einskiptisútgjöld séu hærri. Gjaldtaka skal einnig vera rafræn og án óþæginda og tafa fyrir umferð.

Þá um vegaframkvæmdir fjármagnaðar með gjaldtöku. Meiri hlutinn leggur áherslu á að gjaldtökunni verði háttað með eftirfarandi hætti:

Í fyrsta lagi á þremur meginstofnæðum, þ.e. Reykjanesbraut að Keflavíkurflugvelli, Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi, út frá höfuðborgarsvæðinu. Markmið gjaldtöku á þessum leiðum er að flýta framkvæmdum eins og skipulag og undirbúningur leyfa og gera stofnæðarnar enn betur úr garði en núverandi áætlanir gera ráð fyrir, með mislægum gatnamótum og lengri 2+2 köflum. Til að hefja framkvæmdir þarf að tryggja hagstæða lántöku sem greidd verður með veggjöldum. Innheimtu þeirra verði hætt um leið og lánið verður greitt upp að fullu.

Í öðru lagi verði skoðað með jafnræði fyrir augum hvort ákveðnar leiðir á landsbyggðinni sem stytta vegalengdir verði fjármagnaðar með blandaðri fjármögnun; að hluta til með fjárframlögum af samgönguáætlun og að hluta til með lántöku sem greidd verði með gjaldtöku. Gjaldtöku verði hætt þegar lán verður greitt upp. Dæmin um framkvæmdir sem gætu fallið í þennan flokk eru auðvitað fjölmörg, en við nefnum hér hringveginn um Hornafjarðarfljót og Axarveg.

Í þriðja lagi megi innheimta veggjald í jarðgöngum á Íslandi samkvæmt nánari útfærslu, með undantekningum þar sem svo er ákveðið. Gjaldtöku í jarðgöngum verði ætlað að standa undir þjónustu og rekstri jarðganga, sem er hærri fjárhæð en á samsvarandi löngum stofnvegarkafla, og einnig hlut í nýbyggingum. Gjaldtakan verði liður í nýrri jarðgangaáætlun sem væri hluti af samgönguáætlun með það að markmiði að ekki verði hlé á uppbyggingu jarðganga. Í þeirri áætlun verði jafnframt tilgreint hvaða jarðgöng falla undir gjaldtöku og í hversu langan tíma.

Þær framkvæmdir sem meiri hlutinn leggur til að fjármagnaðar verði með gjaldtöku samkvæmt lið 1 koma fram í töflu sem er meðfylgjandi í álitinu.

Það er ekki gert ráð fyrir að framlög ríkissjóðs til samgönguframkvæmda lækki vegna gjaldtökunnar, en rétt er að taka fram að verði ríkiseignir seldar er mikilvægt að það svigrúm til samgöngubóta sem myndast nýtist einnig til uppbyggingar innviða, enda þörfin brýn.

Við fjöllum í álitinu um ýmsa vegi í vegáætlun. Eins og áður sagði leggur meiri hlutinn til að svigrúm sem myndast í samgönguáætlun næstu ára með fjármögnun stórra framkvæmda með veggjöldum verði m.a. notað til að auka heildarframlög til tengivega og styrkvega. Meiri hlutinn leggur til breytingartillögu þess efnis strax á árunum 2019–2020 og hér eru nefnd verkefni í öllum landshlutum. Meiri hlutinn bendir á að það kann að vera þörf á að bæta umferðartalningu á þessum vegum þar sem breytt hegðun ferðamanna getur breytt umferðarþunga hlutfallslega mikið á stuttum tíma. Þá leggur meiri hlutinn til að flýtt verði sérstaklega framkvæmdum í þágu tveggja jaðarsvæða, þ.e. Árneshrepps á Ströndum og Langanesbyggðar á norðausturhorninu.

Samkvæmt samþykktu frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2019 er hagræðingarkrafa á málaflokkinn í heild, málaflokk 11, 535,5 millj. kr. og við því var brugðist við vinnslu samgönguáætlunar.

Það eru nokkur verkefni nefnd hér, virðulegur forseti, sem er mikilvægt að fara í og rætt hvernig við uppröðum fjármagni í samræmi við þann niðurskurð sem við stóðum frammi fyrir. Þar kemur fram að framlög skuli lækkuð á þessu ári til verksins um Gufudalssveit, af því að það eru fyrningar til frá síðustu árum í þá framkvæmd, en þetta mun ekki hafa áhrif á verklok á þessum kafla.

Ég vil nefna að í ár stendur til að aðskilja akstursstefnur á Grindavíkurvegi.

Það kom fram við vinnslu nefndarinnar að vegna niðurrifs Sementsverksmiðju ríkisins eru breyttar aðstæður á Faxabraut á Akranesi sem er skilgreind sem stofnvegur. Sjór gengur yfir veginn og hamlar uppbyggingu á svæðinu þar sem íbúabyggð er fyrirhuguð. Fjárþörf til sjóvarna og vegagerðar er um 550 milljónir. Það er brýnt að ljúka þessu verkefni sem fyrst og við því var brugðist.

Við leggjum einnig mikla áherslu á að framkvæmdum við Arnarnesveg verði hraðað eins og mögulegt er þannig að framkvæmdir geti hafist um leið og skipulagi og hönnun verður lokið. Við gerum ráð fyrir að það svigrúm sem myndast við gjaldtökuleiðina verði m.a. nýtt í þau verkefni.

Ríkisstjórnin samþykkti 23. nóvember sl. tillögu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um eflingu byggðar við Bakkaflóa. Tillögurnar eru settar fram í skýrslu nefndar sem ráðherra skipaði til að fjalla um málefni byggðarinnar. Þar er eindregið lagt til að lagning bundins slitlags á Langanesströnd hefjist árið 2019. Meiri hlutinn áréttar að lokið verði við veg um Langanesströnd á næstu tveimur, þremur árum.

Fyrir nefndinni kom fram að nauðsynlegt væri að viðhalda vegum sem nýttir eru til akstursíþrótta.

Því næst er hér fjallað um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu og þá skýrslu sem kom út um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu til 2033. Það er vinna í gangi á milli samgönguráðuneytisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um útfærslu á þessum verkefnum, kostnaðarmat og forgangsröðun. Það kemur fram að borgarlína er lykilþáttur í því að gera almenningssamgöngur að raunverulegum valkosti innan höfuðborgarsvæðisins. Í skýrslunni er borgarlína skilgreind sem hágæða almenningssamgöngukerfi í sérrými. Gert er ráð fyrir því að borgarlína verði í sérrými eða á sérstökum akreinum, en þar með skerðir borgarlínan ekki afkastagetu stofnveganna sem er mikilvægt með hliðsjón af áætlaðri aukningu umferðar bíla. Aukningin er talin verða 24% þrátt fyrir að við myndum ná að breyta ferðavenjum. Í áðurnefndri skýrslu leggur verkefnishópurinn áherslu á að uppbygging stofnleiða fyrir samgöngur á höfuðborgarsvæðinu verði framar í forgangsröð samgönguáætlunar auk þess sem lögð er áhersla á mikilvægi þess að á stofnvegunum Reykjanesbraut frá Sundabraut til Suðurnesja og Vesturlandsvegi frá Reykjanesbraut og norður úr ásamt Suðurlandsvegi frá Vesturlandsvegi og austur úr sé sérstaklega hugað að greiðu og öruggu flæði einka- og þungaumferðar.

Meiri hlutinn tekur undir þessi meginsjónarmið sem koma fram í skýrslunni og leggur áherslu á að almenningssamgöngur verði byggðar upp hratt á þeim svæðum þar sem ódýrt húsnæði er til staðar eða uppbygging er fyrirhuguð á næstunni innan og utan höfuðborgarsvæðisins.

Komið hefur fram að ríkisstjórnin hefur lýst sig reiðubúna til að fjármagna allt að 50% áætlaðs kostnaðar við uppbyggingu innviða borgarlínu. Í samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033 er gert ráð fyrir borgarlínu en engu fjármagni úthlutað, enda var vinnu verkefnishópsins ekki lokið við framlagningu samgönguáætlana á Alþingi og til þess horft að samgönguáætlun verði endurskoðuð haustið 2019. Þá liggi jafnframt fyrir samkomulag ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um fjármögnun, samstarf og markmið. Meiri hlutinn telur afar mikilvægt að framkvæmdir við uppbyggingu hefjist sem allra fyrst enda er um að ræða lykilverkefni í því markmiði stjórnvalda að efla almenningssamgöngur sem og að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Leggur því meiri hlutinn til breytingu á fimm ára samgönguáætlun sem ætlað er að tryggja að hafist verði handa þegar á þessu ári við uppbyggingu innviða hágæða almenningssamgangna í náinni samvinnu ríkis og allra sveitarfélaga á svæðinu.

Í skýrslunni leggur verkefnishópurinn til að leitað verði nýrra leiða til að afla fjármagns til framkvæmda við endurgerð almenningssamganga. Leggur meiri hlutinn áherslu á að ríki og sveitarfélög komist að niðurstöðu í þeirri vinnu og niðurstaðan rími við frumvarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis um gjaldtöku í samgöngum.

Framkvæmdir við uppbyggingu borgarlínu taka tíma og þær komast fyrst á fullan skrið árið 2021 samkvæmt skýrslu verkefnishópsins og eru áfangaskiptar. Þá bendir meiri hlutinn á að það færist í aukana að fólk búi í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og sæki vinnu eða skóla til borgarinnar. Í því ljósi leggur meiri hlutinn sérstaka áherslu á tengingar vagnakerfisins og borgarlínu við almenningssamgöngur á landsbyggðinni, jafnt á landi, í legi sem lofti.

Í gildi er samningur við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við uppbyggingu og rekstur almenningssamgangna og markvissar stuðningsaðgerðir í tilraunaverkefni til 10 ára. Í samningnum er kveðið á um frestun umfangsmikilla vegaframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu en hann gildir til ársins 2022. Í ljósi þess að nú er lagt til að hefja á ný umfangsmiklar vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu er ljóst að endurskoða þarf samninginn.

Hér er fjallað um hjólreiðar og bent á að hlutdeild þeirra í ferðavenjum hafi aukist mjög mikið, úr 4% í 6%, samkvæmt könnun frá 2014. Lögð er áhersla á að byggja upp hjólastíga. Þar er horft sérstaklega til höfuðborgarsvæðisins, en við bendum einnig á nauðsyn hjólastíga á landsbyggðinni.

Það er einnig fjallað um almenningssamgöngur utan höfuðborgarsvæðisins og þá þróun sem þar hefur átt sér stað, en á síðasta ári sögðu landshlutasamtökin upp samningum við Vegagerðina og ríkið. Það er unnið að lausn þeirra mála, búið að tryggja rekstur almenningssamgangna út þetta ár og reiknað með því að á næsta ári muni nýr samningur taka gildi þar sem verður búið að tryggja fjármögnun almenningssamgangnakerfisins. Meiri hlutinn telur brýnt að almenningssamgöngur séu fyrir hendi í öllum landshlutum, enda eru þær mikilvægar fyrir atvinnu- og námsskilyrði innan landshlutanna, og að þær séu raunhæfur valkostur fyrir íbúa og ferðamenn.

Skýrt kom fram á fundum nefndarinnar hversu mikilvægt innanlandsflugið er fyrir Norðurland, Austurland og Vestfirði. Meiri hlutinn tekur heils hugar undir markmið samgönguáætlunar að íbúar landsbyggðarinnar eigi kost á að komast til höfuðborgarsvæðisins á um 3,5 klukkustunda samþættum ferðatíma, akandi, með ferju og/eða í flugi.

Á fundum nefndarinnar kom fram að samráð Vegagerðarinnar við sveitarfélög væri ekki nægilega mikið og náið. Meiri hlutinn áréttar að brýnt er að Vegagerðin eigi í nánu sambandi við sveitarfélög um allt land. Það eru jafnan íbúar svæðisins sem búa yfir mestri þekkingu á staðnum og nota samgöngumannvirkin mest. Meiri hlutinn ítrekar mikilvægi náins samráðs milli Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna og telur æskilegt að Vegagerðin myndi fastmótaða ferla fyrir samráð við sveitarfélög og landshlutasamtök þeirra svo að það verði markvisst og nýtist sem best.

Virðulegur forseti. Í kaflanum Umferðaröryggi skiptir sköpum áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að unnið verði að umferðaröryggismálum. Tollur umferðarslysa er allt of hár á Íslandi í samanburði við þær þjóðir sem við berum okkur saman við. Á árinu 2017 létust 13 einstaklingar í umferðarslysum og 189 slösuðust alvarlega, en banaslys 2018 voru 15 talsins. Árið 2016 létust 18 einstaklingar og 215 manns slösuðust alvarlega. Fjöldi slasaðra og látinna á hverju ári vegna umferðarslysa er því mikið áhyggjuefni. Það er áætlað að árlegur samfélagslegur kostnaður af þessum slysum sé 40–60 milljarðar kr. Meiri hlutinn telur rétt að hugað verði sérstaklega að úrbótum á vegum og gatnamótum þar sem börn og ungmenni fara um. Þá kom fram að efla þyrfti forvarnir og fræðslu til þeirra sem vegakerfið nota og það næði ekki síst til barna og unglinga og jafnvel erlendra ferðamanna. Vegmerkingar þyrfti að bæta, þær væru víðast hvar víða ófullnægjandi. Vetrarþjónusta er mikilvægur þáttur í umferðaröryggi og í þágu almennings og atvinnulífs er mikilvægt að efla vetrarþjónustu.

Fjallað er um flug innan og utan lands og flugvelli landsins og farið yfir þær tillögur, sem nánari grein verður gerð fyrir á eftir, sem hafa komið frá starfshópi um flugvallarmál. Í stuttu máli er þar lagt til að millilandaflugvellirnir á Egilsstöðum, Akureyri og Reykjavík verði færðir undir rekstrarmódel Isavia og það fjármagn sem við það losnar verði notað til að byggja upp aðra flugvelli í landinu. Til þess að standa undir því og þessari samþættingu í flugvallarekstri verði lagt á sérstakt þjónustugjald, svokallað varaflugvallargjald sem var aflagt fyrir nokkrum árum, og það verði notað til að byggja upp þessa mikilvægu þjónustu í vaxandi flugumferð. Það kom fram fyrir nefndinni að það er mikið áhyggjuefni hver staðan er í þeim málum hér á landi. Hér má ekki gefa neinn afslátt, virðulegur forseti. Meiri hlutinn áréttar því að það þoli enga bið að hefja vinnu við aukið flugöryggi og eflingu varaflugvallanna.

Það er einnig fjallað um niðurstöður frá sama hópi, sem gerð verður nánari grein fyrir á eftir, um niðurgreiðslu fargjalda í innanlandsflugi eða svokallaða skosku leið. Það segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar m.a. að unnið verði að því að gera innanlandsflug að hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðarinnar.

Nefndin ræddi umhverfisáhrif af auknum farþegafjölda í innanlandsflugi. Í niðurstöðum félagshagfræðilegrar greiningar á innanlandsflugi frá 2013–2014 kom fram að loftslagslegur ávinningur af innanlandsflugi gagnvart vegasamgöngum er umtalsverður. Við tökum því undir tillögu starfshópsins um að útfæra svokallaða skoska leið sem gerir íbúum landsbyggðarinnar, þeirra sem eiga lengra að sækja, kleift að nota almenningsflug sem raunhæfan samgöngumáta í almenningssamgöngum.

Í álitinu er einnig komið inn á mikilvægi þess að bæta við fjármögnun hafnarframkvæmda, farið yfir það og nefnd nokkur dæmi. Okkur bárust frekari ábendingar um nauðsynlegar hafnarframkvæmdir víðs vegar um landið og við áréttum mikilvægi þess að þeim verði flýtt eins og unnt er og forgangsröðun verði endurskoðuð við undirbúning næstu samgönguáætlunar. Meiri hlutinn leggur sérstaka áherslu á rafvæðingu hafna og því verði flýtt eins og kostur er með tilliti til umhverfis- og efnahagsmála og bendir meiri hlutinn á að ein aðgerðanna í aðgerðaáætlun um loftslagsmál er orkuskipti í ferjum Þá er ljóst að tryggja verður að ferjur séu búnar með viðeigandi hætti. Smíði Vestmannaeyjaferju er langt komin, en hún mun ganga fyrir rafmagni. Viðbótarkostnaður þess vegna er um 800 milljónir. Það orsakaði að ákveðnar breytingar varð að gera á samgönguáætlun.

Það er fjallað um skipulagsmál og mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Það er bent á nauðsyn þess að vinnsla við aðal- og deiliskipulag sveitarfélaga gangi hratt og vel fyrir sig. Ótækt væri að brýnar framkvæmdir sem eru í samþykktri samgönguáætlun, jafnvel byrjað að undirbúa af hálfu Vegagerðarinnar, tefðust vegna tafa við gerð skipulags sveitarfélaga. Það er einnig bent á mikilvægi þess að vinna að endurskoðun á heildarlögum um mat á umhverfisáhrifum áætlana og framkvæmda, sem nú er í gangi á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, í því augnamiði að auka gagnsæi og skilvirkni allrar matsvinnu í þessum efnum. Mikill ágreiningur hefur verið gerður, sérstaklega af hálfu sveitarfélaga og framkvæmdaraðila, um það hversu tafsamt þetta kerfi getur verið.

Hér er einnig fjallað um rannsóknir, þróun og umhverfismál sem snúa að Samgöngustofu í ákveðnum kafla. Bent er á að við erum með vaxandi umferð stórra skipa um norðurslóðir og í íslenskri efnahagslögsögu. Þetta er verkefni sem er mjög mikilvægt að við hugum að í náinni framtíð.

Aðhaldskrafan sem birtist okkur, ég fór yfir hana áðan, 535,5 milljónir, og við gerðum ráðstafanir hennar vegna.

Við reiknum með því að ef hlutir ganga fram sem horfir, þ.e. að hér verði gengið frá lagafrumvarpi á vordögum sem snýr að útfærslu á gjaldtökuverkefnum í samgöngum, verði samgönguáætlun endurskoðuð á haustdögum með það að markmiði að samræma hana því svigrúmi sem myndast til öflugra samgönguframkvæmda innan höfuðborgarsvæðisins og úti um land á grundvelli þess.

Það fylgir hér breytingartillaga frá meiri hluta nefndarinnar sem snýr að nokkrum þáttum og er of langt að fara í gegnum hana lið fyrir lið.

Síðan er hér breytingartillaga sem ég vil leggja fram við þskj. 880, um fimm ára samgönguáætlun, sem varð til út af þeim ágreiningi og kannski ákveðnum misskilningi vegna framkvæmda í jaðri höfuðborgarsvæðisins og uppi á Kjalarnesi. Þar er sem sagt tekið á vegi um Skarhólabraut og Hafravatnsveg uppi í Mosfellsbæ og síðan á Kjalarnesi, þar sem við færum fram fjármuni. Eftir fund með Vegagerðinni í gær þá varð til breytingartillaga sem ætti að geta skapast góð sátt um.

Virðulegur forseti. Þetta er langt nefndarálit, þetta er búin að vera gríðarlega mikil vinna á vettvangi nefndarinnar. Það má segja að á þessum þingvetri hafi vinna nefndarinnar snúist nánast eingöngu um samgönguáætlun og það er kannski ekkert óeðlilegt. Þetta er málaflokkur sem er knýjandi um allt land og þar sýnist sitt hverjum.

Verði sú stefna að veruleika sem hér er mörkuð þá er það alveg ljóst að við erum að stíga stærri skref í eflingu samgöngukerfisins en stigin hafa verið á Íslandi nokkru sinni áður, að ég tel að hægt sé að fullyrða. Þegar sú leið verður komin í farveg sem hér er farið yfir þá mun fjármagn til nýframkvæmda á ári nánast tvöfaldast. Þetta er auðvitað fyrst og fremst lagt til vegna mikilvægis þess að við búum við öruggara samgöngukerfi. Slysin gera ekki boð á undan sér, virðulegur forseti, og öll erum við mannleg og mannleg mistök verða ekki umflúin, hvorki í þessum efnum né öðrum. Vegakerfið þarf að vera í stakk búið til að mæta þessum mannlegu mistökum. Þannig er það ekki í dag og því er allt of hátt hlutfall alvarlegra slysa í okkar vegakerfi. Það er auðvitað umdeilt að hefja gjaldtöku á þessum forsendum, en það er mikilvægt að horfa til þess hvaða leiðir eigi að fara og hvernig við eigum að fjármagna þetta. Sú staðreynd blasir við að framlög til samgöngumála hafa aukist umtalsvert á undanförnum árum, fyrst 2016, 2017 og 2018 og nú í ríkisfjármálaáætlun fyrir 2019–2022 var aukið svo um munar næstu þrjú ár um 5,5 milljarða til samgöngumála. Þrátt fyrir þetta, virðulegur forseti, eru vonbrigðin mikil og kallað eftir enn hraðari framkvæmdum.

Það er engin tilviljun að í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við hafa menn kosið að fara slíka veggjaldaleið til að stíga stór skref í að bæta vegakerfið. Það eru augljósir kostir við hana og m.a. í okkar tilfelli þeir að sú mikla umferð erlendra ferðamanna sem er um vegi landsins verður auðvitað til þess að létta átakið og leggjast á árar með okkur í þessum mikilvæga málaflokki. Það er í senn umhverfismál, öryggismál og hagsmunamál að því leyti að stytta ferðatíma og greiða fyrir umferð. Rúsínan í pylsuendanum er síðan auðvitað sú að við keyrum í öruggu umhverfi, keyrum á vegum sem standast ýtrustu kröfur. Að fara þessa leið gerir okkur kleift að gera skrefin stærri og betri. Þegar ég tala um betri þá á ég við það að í stað þess, af því að við búum við takmarkað fjármagn, að menn séu að útfæra 1+2 lausnir og hringgatnamót, væri hægt að klára tvöföldun strax og fara strax í mislæg gatnamót (Forseti hringir.) og vinna þannig fram fyrir okkur um mörg ár og það þarf (Forseti hringir.) ekki að koma aftur á svæðið til að efla samgöngukerfið (Forseti hringir.) fyrr en að mörgum árum liðnum.