149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[15:45]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég spyr aftur: Á sem sagt hækkun veiðigjalda að borga tillögur minnihlutaflokkanna um aukin framlög til eldri borgara, aukin framlög til öryrkja, aukin framlög í menntakerfið og aukin framlög í vegakerfið, til að svara þessum 13 milljörðum? Eða er minni hlutinn búinn að gefast upp á að leggja fram aukin framlög af veiðigjöldum í þá málaflokka og orðinn sammála um að það eigi allt að fara í vegakerfi til að fjármagna þá 13 milljarða?

Mig langar líka að taka fram að ekki var samþykkt að lækka veiðigjöldin, þau voru frekar hækkuð ef eitthvað var. Það var verið að afkomutengja þau.

Ég spyr hv. þingmann hvaða framkvæmdir voru teknar fram fyrir þær framkvæmdir sem minni hlutinn leggur til og segir að ríkisstjórnin hafi viljandi ekki forgangsraðað í þágu umferðaröryggis. Hvaða framkvæmdir eru framar þeim mikilvægu framkvæmdum í forgangsröð? Ég vil fá lista yfir þær.