149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur kærlega fyrir fyrirspurnina. Ég hafði ekki áttað mig á því að það væri grundvöllur þingsályktunartillögu um samgönguáætlun til fimm og 15 ára að leggja ætti á veggjöld, eins og hv. þingmaður kom inn á. Ég sá eingöngu örlítið um það rætt í þeirri þingsályktunartillögu. Ekki er lagt til í tillögunni að ákveðnir vegir séu alfarið byggðir upp og fjármagnaðir með veggjöldum. Það kemur alveg skýrt fram að þetta sé eitthvað sem verið sé að skoða í ráðuneytinu, en eins og hv. þingmaður veit fullvel fór vinna nefndarinnar í desembermánuði (Forseti hringir.) algerlega á hliðina vegna þeirra hugmynda (Forseti hringir.) að koma inn með ákveðnar breytingar. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður var þar, alveg eins og sú sem hér stendur, og það má líka sjá í umfjöllun í fjölmiðlum, (Forseti hringir.) þegar lagðar voru til miklar breytingar á samgönguáætlun vegna fjármögnunar (Forseti hringir.) með veggjöldum.

(Forseti (JÞÓ): Forseti minnir þingmenn aftur á að halda ræðutíma. Það skemmir ræðuna hvort sem er og skemmir fyrir þeim sem heima sitja að hlusta á ræðurnar. Þegar forseti fer yfir 15 sekúndna markið hamrar hann ansi hart sem skemmir fyrir öllum. Pössum ræðutímann.)