149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[16:41]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við ræðum samgönguáætlun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar, áætlun sem nokkur styr hefur staðið um síðustu vikur, fyrst og fremst vegna nálgunar stjórnarmeirihlutans og vinnulags við þær grundvallarbreytingar sem hafa verið kynntar til sögunnar í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.

Það er ekki nógsamlega áréttað hversu mikilvægt er að vinna jafn viðamiklar breytingar og eru í farvatninu á faglegan hátt. Sú ruglingslega mynd sem hefur verið dregin upp af stöðunni hefur staðið í vegi þess að hagsmunaaðilar hafi fengið færi á að koma með gagnlegar athugasemdir. Það er ekki gott. Það hefur til að mynda frá upphafi umræðunnar verið óljóst í hugum margra, t.d. gesta sem boðaðar hafa verið til fundar í umhverfis- og samgöngunefnd og hagsmunaaðila, hvort með títtnefndum veggjöldum sé átt við tímabundin gjöld til að fjármagna einstakar framkvæmdir eða hvort um er að ræða ný langtímagjöld sem vegfarendur greiða í stað núverandi skattlagningar eða hvort tveggja.

Þetta skiptir augljóslega miklu máli. Almenningur, notendur samgöngukerfisins, greiðir nú vörugjöld, bensíngjöld, olíugjöld, kolefnisgjöld og bifreiðagjöld. Með aukinni umferð ökutækja sem nýta ekki jarðarefnaeldsneyti liggur fyrir að tekjur ríkisins af bensíni og olíugjaldi dregst saman og bregðast þarf við því. Í tillögum starfshóps samgönguráðherra um fjármögnun samgöngukerfisins eru ýmsar leiðir nefndar til sögunnar, svo sem að útvíkka skattkerfið með hækkun bifreiðagjalda, taka upp tímagjöld á vegum eða notkunargjöld, t.d. með álestri á kílómetramælum bifreiða eða staðsetningarkerfi í bílum.

Þær hugmyndir eru hins vegar ekki til umræðu í samgönguáætlun heldur tengjast boðuðu frumvarpi samgönguráðherra í mars varðandi fjármögnun í samgöngum, ef ég skil málið rétt. Ég vísa þar í umsögn meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar um málið þar sem segir, með leyfi forseta:

„Einnig bendir meiri hlutinn á að fyrirkomulag almennra gjalda af umferð þarfnast heildarendurskoðunar þegar fram í sækir og orkuskiptum hefur fleygt fram. Er sú vinna þegar hafin á vegum stjórnvalda.“

Engu að síður hefur reynst erfitt að vinda ofan af þeim misskilningi fjölmargra að með boðuðum veggjöldum sé verið að mæta nýrri framtíð með orkuskiptum í samgöngum, að veggjöldin komi í stað eldsneytisgjalda. Það er ekki svo, herra forseti, en það er hins vegar miður að svo illa hafi tekist til með kynningu á málinu að jafnvel hagsmunaaðilar sem komu á fund umhverfis- og samgöngunefndar í upphafi þessa árs til að ræða þær nýju hugmyndir virtust ekki nægjanlega upplýstir um þetta.

Sú staðreynd að samgöngur eru lífæðar þjóða á ekki síst við í okkar fámenna og strjálbýla landi. Þrátt fyrir það liggur fyrir að yfirvöld hafa um árabil vanrækt það hlutverk sitt að sinna almennri uppbyggingu og viðhaldi á vegum landsins. Þegar við bætast nýjar áskoranir vegna gríðarlegrar fjölgunar ferðamanna síðustu árin er ljóst að aðgerða er þörf. Sú staðreynd endurspeglast vissulega í þeim breytingum sem orðið hafa á samgönguáætlun í meðferð meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, bæði í breyttri nálgun og í tillögum í nefndaráliti og í breytingartillögum.

Í áliti minni hlutans sem og í breytingartillögum er brugðist við sömu knýjandi þörf en á annan hátt. Hæstv. samgönguráðherra mælti fyrir samgönguáætlun á þingi í lok september á síðasta ári. Í kjölfarið tók umhverfis- og samgöngunefnd þingsins við málinu eins og venja er og sendi áætlunina út til umsagnar. Nefndin sendi málið til umsagnar 112 aðila en þegar upp var staðið voru innsendar umsagnir alls ríflega 1.500 talsins. Munar mest í þeim fjölda um hvatningu hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar til áhugasamra um að láta í sér heyra, ekki síst vegna fyrirhugaðra veggjalda á suðvesturhorni landsins.

Í október og nóvember, eftir að hæstv. samgönguráðherra lagði fram áætlun sína, fékk umhverfis- og samgöngunefnd til sín fjölda gesta og safnað viðamiklum og verðmætum upplýsingum auk óska um breytta forgangsröðun, meira fjármagn, betra samstarf o.fl. Þær upplýsingar var nefndin að vinna með þegar meiri hlutinn, og ekki síst hæstv. samgönguráðherra, kúventi í nálgun sinni á málið, a.m.k. opinberlega. Minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar telur skyndilega og ótímabæra umræðu meiri hlutans um veggjöld hafa sett strik í reikninginn í þeirri vinnu sem nefndin var komin vel á veg í varðandi það að ná utan um afstöðu landshluta og sveitarfélaga til framkvæmda og forgangsmála á svæðunum í takt við framlagða samgönguáætlun.

Það vekur jafnframt undrun að þau skilaboð sem nefndinni bárust þar að lútandi sjást að mjög litlu leyti í umsögn meiri hlutans en þeim mun meiri áhersla er lögð á hugmyndina um veggjöld til að fjármagna sérstakar framkvæmdir. Í ljósi frumvarps um fjármögnun í framkvæmdum sem boðað hefur verið og þeirra upplýsinga sem umhverfis- og samgöngunefnd hefur viðað að sér varðandi óskir um forgangsröðun og framkvæmdir hefði að mínu mati og okkar sem stöndum að áliti minni hlutans verið æskilegra að þess sæi stað í nefndaráliti núna og að vinna við veggjaldahugmynd yrði betur útfærð áður en lengra yrði haldið, m.a. með tilliti til samfélagslegra áhrifa og jafnræðis meðal íbúa þessa lands.

Þegar tekið er tillit til þess hversu brýnt það er að hefja tilteknar framkvæmdir, ekki síst á umferðarþungum svæðum á suðvesturhorni landsins, og þess hve vinna við útfærslu veggjalda er stutt á veg komin, m.a. með tilliti til praktískra mála hvað varðar framkvæmd og atriði á borð við samfélagsleg áhrif og mikilvægi jafnræðis, er tillaga minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar að þær framkvæmdir sem um ræðir og eru tilteknar í breytingartillögu minni hlutans verði fjármagnaðar úr ríkissjóði. Enda er ekki óeðlilegt að fjármögnun framkvæmda sem fyrst og fremst varða öryggi landsmanna sé á borði ríkisstjórnar í gegnum ríkissjóð.

Það spilar líka inn í að þær framkvæmdir sem þrátt fyrir allt eru í tillögunum eru ekki af þeirri stærðargráðu að ógerlegt sé að fjármagna þær öðruvísi en með slíkri sérstakri skattlagningu ofan á aðra skattlagningu á þorra almennings. Má meðal annarra fjármögnunarleiða nefna álagningu auðlindagjalda, hækkun veiðigjalda, einhvers konar útfærslu á sérstökum gjöldum eða skatti á ferðamenn, sem svo oft hefur verið ræddur, jafnvel reyndur, sölu ríkiseigna eða hreinlega með minni afgangi ríkissjóðs í ljósi aðstæðna.

Þegar þeir kostir, og ýmsir fleiri sem ég hef ekki nefnt en ímynda mér að einhverjir kynnu að hafa í huga, eru skoðaðir mætti jafnhliða hafa í huga þann efnahagslega ábata sem hlýst af mikilvægum framkvæmdum á stofnvegunum. Kostnaður samfélagsins vegna umferðarslysa vegna ófullnægjandi aðstöðu á vegum í dreifbýli og þéttbýli er áætlaður um 50 milljarðar kr. á ári hverju. Efnahagslegur ábati af þeim framkvæmdum sem um ræðir, þ.e. þremur stofnvegum inn og út úr höfuðborginni, myndi samkvæmt bráðabirgðatölum borga framkvæmdirnar upp á innan við áratug á meðan gengið er út frá því að veggjöld borgi framkvæmdirnar upp á tveimur áratugum, þ.e. í töluverðan tíma eftir að framkvæmdirnar hafa raunverulega borgað sig upp sjálfar.

Minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar styður tillögu meiri hlutans um forgangsröðun eins og þær birtast í köflunum, vegaframkvæmdir fjármagnaðar með gjaldtöku og ýmsir vegir á vegáætlun. Við styðjum einnig tillögur um nýjar framkvæmdir og um flýtingu tilgreindra framkvæmda um landið, enda liggur þar faglegt mat Vegagerðar undir. Með þeim rökum sem ég hef rakið tekur minni hlutinn þó ekki undir nauðsyn þess að innheimta veggjöld til að fjármagna þær framkvæmdir. Leggur minni hlutinn til breytingar á samgönguáætlun sem miði að því að tryggja að ráðist verði í þær brýnu framkvæmdir sem fyrst og þær fjármagnaðar á annan hátt, eins og ég hef rakið.

Því til viðbótar leggur minni hlutinn til og telur nauðsynlegt að án tafar verði lagt fjármagn í Arnarnesveg, vegaframkvæmdir sem stjórnvöld ætla enn og aftur að fresta. Þar að auki hefur meiri hlutinn lagt áherslu á að þær framkvæmdir verði tengdar innheimtu veggjalda. Framkvæmdir á Arnarnesvegi eru einfaldlega brýnt öryggisatriði fyrir stóran hluta þjóðarinnar sem þarf að setja fremst í forgangsröð framkvæmda og er óásættanlegt að stilla þannig upp að þær séu háðar niðurstöðu um veggjöld á íbúa suðvesturhornsins.

Það er rétt að taka fram að þótt nálgun og útfærsla meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar varðandi hugmyndir um veggjöld sem leið til að flýta einstaka brýnum samgönguframkvæmdum sé hafnað af augljósum ástæðum sem ég hef rakið er það ekki staðfesting af minni hálfu að ég telji slíka leið með öllu ófæra, þvert á móti. Ég tel einmitt að við tilteknar aðstæður geti verið jákvætt að fara þá leið að setja á veggjöld, t.d. þegar vegfarendur geta valið aðrar leiðir, þegar fagleg niðurstaða á samfélagslegum áhrifum svo umfangsmikilla framkvæmda liggur fyrir, þegar ekki er bókstaflega verið að tala um allar leiðir inn og út af höfuðborgarsvæðinu og síðast en ekki síst þegar þess er gætt að jafnræði gildi meðal íbúa og skattgreiðenda landsins. Þær aðstæður eru ekki til staðar eins og málið er sett fram af hálfu meiri hlutans.

Herra forseti. Mig langar að ræða jafnræði áfram. Það er ljóst að hlutur stórhöfuðborgarsvæðisins í heildarfjárframlagi ríkissjóðs til samgöngumála er mun minna en hlutfall skatttekna ríkissjóðs af ökutækjum á því sama svæði. Það er eitt af þeim málum sem einfaldlega ríkir samfélagsleg sátt um og skilningur á því að ef málum væri ekki hagað svona yrði næsta lítið um brýnar framkvæmdir í hinum dreifðari byggðum. En nú er gengið mun lengra í álögum á íbúa stórhöfuðborgarsvæðisins með skattlagningu. Ég kalla þetta skattlagningu vegna þess að eins og málið er kynnt er það allt undir sem í slíkri skilgreiningu felst.

Fram kemur í umsögn meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar að ekki er gert ráð fyrir að fjárframlag ríkissjóðs til samgönguframkvæmda lækki vegna gjaldtöku á þeim framkvæmdum sem nefndin leggur til að verði fjármagnaðar með veggjöldum, þ.e. meginstofnæðarnar þrjár út frá höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar segir að þar sem þetta verði ekki lengur fjármagnað úr ríkissjóði, eins og áætlun gerir ráð fyrir að hluta, heldur með veggjöldum verði það svigrúm nýtt annars staðar. Tekið er til tengivega og til ferðavega úti á landi o.s.frv., vissulega ekki nákvæmlega útfært en þannig er það.

Svigrúmið er þá það sem er í fjárframlögum ríkissjóðs núna vegna framkvæmda við meginstofnbrautirnar þrjár, svo koma vegatollar inn, íbúar suðvesturhornsins munu bera hitann og þungann af því og svigrúmið fer annað. Þetta er ekkert annað en viðbótarskattlagning á íbúa suðvesturhornsins. Sama má segja um þá fyrirætlun að taka vegina alla fyrir í einu þannig að allar leiðir inn og út úr borginni verði háðar veggjöldum og íbúar hafi ekki aðrar leiðir um að velja, hafi þeir á annað borð hug á að búa hér. Það er skattlagning. Og nánari skilgreining: Þetta er svæðisbundin skattlagning, herra forseti.

Það er af ýmsu að taka. Ég hef áhuga á því að koma að almenningssamgöngum í annarri ræðu sem ég í bjartsýni minni taldi mögulegt að yrði aftur í dag eða kvöld en mér sýnist að það þurfi að frestast um sinn. En ég ætla að taka borgarlínuumræðu.

Borgarlínan er samvinnuverkefni allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem þvert á flokkapólitík hafa sammælst um það nauðsynlega verkefni, það mikilvægasta í hinum mjög svo brýna almenningssamgangnamálaflokki. Ef vel ætti að vera myndu almenningssamgöngur á landsvísu skipa heiðurssæti í samgönguáætlun stjórnvalda, hvort sem er til fimm eða 15 ára. Ástæðan er augljós og nefna má atriði á borð við áhrif á búsetuval, samgöngumáta, þar með bæði umferðarþunga og umferðaröryggi, og síðast en ekki síst loftslagsmál, sem er eitt stærsta og mikilvægasta verkefni sem ríkisstjórnir okkar tíma standa frammi fyrir hvar í heimi sem er.

Án stórátaks á borð við borgarlínu verða þau markmið ekki að veruleika. Þau munu ekki nást. Samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins mun t.d. ekki ráða við fjölda einkabíla í umferðinni né munu íslensk stjórnvöld nálgast skuldbindingar sínar í loftslagsmálum. Og hverjar eru þá skuldbindingar stjórnvalda í málefnum borgarlínu? Raunveruleg aðkoma felst í því að setja samtals 800 millj. kr. í verkefnið, í samgönguáætlun til næstu 15 ára, þ.e. á næstu tveimur árum, og ekki meira, raunveruleg aðkoma. Í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar kemur fram að tilteknar framkvæmdir í áætluninni séu í raun hluti af byggingu borgarlínu og stofnleiða á höfuðborgarsvæðinu. Þeim hluta sé unnt að flýta með fyrirhuguðum veggjöldum á stofnleiðum. Gera má alvarlegar athugasemdir við það sem lesa má út úr því, að framkvæmdir sem meiri hlutinn gerir ráð fyrir að íbúar höfuðborgarinnar fjármagni sjálfir með veggjöldum séu innlegg ríkisstjórnarinnar í borgarlínu. Mér þætti vænt um að fá leiðréttingu ef það er misskilningur, mislesið út úr tillögunum.

Minni hlutinn styður tillögu meiri hluta nefndarinnar um 300 millj. kr. framlag á þessu ári en leggur síðan til að á árunum 2020–2023 verði árlegt framlag ríkisins til verkefnisins 2 milljarðar á hverju ári svo að tryggja megi að verkefnið verði að veruleika hið fyrsta. Eins leggjum við til breytingu á samgönguáætlun 2019–2033 þannig að gert sé ráð fyrir nauðsynlegri fjármögnun á öðru og þriðja tímabili samgönguáætlunarinnar.

Hvað varðar flugsamgöngur telur minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar rétt að sá tími sem er til stefnu fram að því að ný og endurskoðuð samgönguáætlun verður lögð fram næsta haust, eins og boðað hefur verið, verði nýttur í að fara ofan í kjölinn á tillögum starfshóps samgönguráðherra um leiðir til að ná fram hagkvæmni í rekstri innanlandsflugvalla og lægri flugfargjöldum. Sérstaklega er brýnt að þær tillögur verði unnar í samhengi við úrbætur í almenningssamgöngum um land allt og það er ekki síst skortur á sýn í þeim hluta sem gerir að verkum að brýnt er að nota næstu vikur og mánuði í að vinna þetta mál áfram.

Áherslur og markmið í loftslagsmálum þurfa að vera áberandi í þeirri vinnu, annað er óásættanlegt, hvort sem litið er til skuldbindinga Íslands á alþjóðavettvangi eða ábyrgðar íslenskra stjórnvalda gagnvart komandi kynslóðum. Í því samhengi má t.d. nefna staðsetningu miðstöðvar innanlandsflugs í hjarta Reykjavíkur en úrbætur þar á geta leikið lykilhlutverk í því að ná fram settum markmiðum hvað varðar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, jafnt flæði umferðar sem öryggi, dreifingu ferðamanna um landið og loftslagsmál.

Herra forseti. Fyrirliggjandi samgönguáætlun er efnismikil. Margt af því sem þar kemur fram hefði verðskuldað ítarlegri umfjöllun á lokaspretti vinnu umhverfis- og samgöngunefndar, líkt og hún gerði í fyrri hlutanum. Aðkoma, skoðanir og tillögur þeirra fjölda hagsmunaaðila sem svöruðu kalli nefndarinnar, sendu inn umsagnir og mættu á fundi hennar hefðu mátt fá meira vægi í lokaniðurstöðu. En gott og vel, aðrir hlutir þóttu mikilvægari. Ófullkomnar hugmyndir um mögulegt framtíðarskipulag fjármögnunar, sem hvort sem er á dagskrá eftir tvo mánuði eða svo, leiddu til þess að samgönguáætlun var lögð fram eins og við sjáum hana hér og álit meiri hlutans með þeim áherslum sem það hefur.

Vinnu umhverfis- og samgöngunefndar varðandi mikilvæg samgöngumál, varðandi fjármögnun og forgangsröðun í einstaka landshlutum í takt við óskir og vilja og þarfir þeirra sem þar hafa komið fram er slegið á frest. Ég vona að niðurstaðan verði sú að við fáum tækifæri til að fara vel ofan í þau mál og vinna þau vel, hlusta á óskir aðila þegar kemur að því að fara yfir nýja boðaða samgönguáætlun hæstv. ráðherra næsta haust, vegna þess að á fundunum komu sannarlega fram margar góðar ábendingar, ekki síst um vinnulagið, um samstarfið, um hvernig betur væri hægt að vinna saman að því að ná niðurstöðu í forgangsatriði, sem snýst sannarlega ekki alltaf um krónur og aura heldur það að hlusta á þá sem næst standa framkvæmdum hverju sinni. Ég óska þess að við berum gæfu til að fara í þá vegferð hið allra fyrsta.