149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:54]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann um almenningssamgöngur og skilgreiningu á þeim, hvaða hugmyndir hann hefur um það hvernig við skilgreinum almenningssamgöngur til að þjónusta þær byggðir sem lengra eru frá Reykjavík. Ég kom inn á það fyrr í dag; strætó til Akureyrar 7 klukkustundir og 15 mínútur, til Egilsstaða og frá Reykjavík eru 12–14 klukkustundir. Hver er tilfinning hv. þingmanns fyrir þeirri umræðu um almenningssamgöngur sem snúa að þessum þætti?

Við sjáum það í áliti minni hlutans að þá virðast almenningssamgöngur vera lykilorðið einhvern veginn en maður fær ekki almennilega fram hver skilgreiningin er hjá hv. þingmanni á almenningssamgöngum. Ég held að við þurfum ítarlegri skilgreiningar og fara kannski í gegnum þetta hér á þingi, hvar menn ætla að setja mörkin þegar talað er um alvörualmenningssamgöngur. Er það þegar tekur 7 eða 12–14 stundir að fara milli staða í strætó?