149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[19:14]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það var annað atriði í máli hans sem vakti athygli mína. Ég er sammála honum um að eðlilegt er þegar talað er um þá miklu framkvæmdaþörf sem er svo rækilega rakin í þeim gögnum sem liggja til grundvallar umræðunni, þar á meðal í hinu ágæta nefndaráliti sem er í vissum skilningi tímamótaplagg í þeim efnum, að ræða verður um það fé sem fyrirhugað er að renni af hugmyndafræðilegum ástæðum, eins og það er útskýrt af hæstv. fjármálaráðherra, í svokallaðan Þjóðarsjóð. Svo er verið að ræða veggjöld. Ég tek eftir því að hv. þingmaður hefur vissa fyrirvara í nefndarálitinu varðandi þau efni. En ef við tengjum saman þá tvo þætti myndi það kannski að einhverju leyti tempra nauðsyn á veggjöldum til að geta komið fram þeim stóru og brýnu málum sem hafa verið nefnd. Þá erum við að tala bæði um vegakerfið, hafnir, flugvelli, minnug þess að millilandaflugið hefur ekki viðunandi varaflugvöll o.s.frv. Ég vil gjarnan inna hv. þingmann eftir því hvernig hann sér þetta samhengi fyrir sér varðandi veggjöldin og þjóðarsjóðinn.

Ég vil ljúka máli mínu með því að segja að að svo miklu leyti sem tillagan um þjóðarsjóðinn kynni að eiga rétt á sér leyfi ég mér að setja spurningarmerki aftan við tímasetningu á því verkefni núna þegar við höfum (Forseti hringir.) þurft að horfa upp á að innviðirnir hafa grotnað niður, sumpart fyrir vanrækslu og sumpart (Forseti hringir.) af því að við urðum fyrir efnahagslegu áfalli.