149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[19:16]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir spurningarnar. Hann ræðir um þjóðarsjóð sem ég kom inn á í máli mínu og er í fyrirvara mínum. Hvers vegna skyldi það ekki vera upp á teningnum þegar um mjög brýnar og afmarkaðar framkvæmdir er að ræða að fé úr slíkum sjóði, sem er ekki orðinn að veruleika enn þá og ekki féð heldur, verði á næstu árum fært yfir í tilteknar framkvæmdir eins og Sundabraut, sem ég nefndi, en hún er þjóðhagslega mjög hagkvæm og sparandi og tengir atvinnusvæði miklu betur en nú er.

Ég tek undir með hv. þingmanni um að nefndarálitið sé að vissu leyti tímamótaplagg. Ég hef ekki lesið sögu Alþingis svo vel að ég viti hvort áður hafi komið jafn ítarlegt álit sem fer gegn upphaflegu tillögunni, breytir verulega frá upphaflegu horfi og tekur allt aðra stefnu. Ég veit ekki hvort það hefur gerst áður í jafn miklum mæli og í þetta skiptið, en ég er alveg sammála hv. þingmanni að þetta er tímamótaplagg í augum samtímans.