149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[19:24]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir spurninguna og gátuna, því að þetta var hálfgerð gáta sem hann kom með. Hann er greinilega búinn að reikna þetta allt saman í þaula. Það er fagnaðarefni ef við getum farið að spara bifreiðaeigendum akstur um landið. Auðvitað fagna ég því með hv. þingmanni.

En ég vil ekki taka eins djúpt í árinni og þingmaðurinn og segja að upphæðin skipti engu máli, hún sé það lág. Ég tel að mörgum finnist bifreiðagjöldin alveg nógu há á bensínbifreiðum. Ég tel þau vera nógu há nú þegar. Ég er eingöngu að tala um að þau verði lækkuð til samræmis með upptöku veggjalda, að ef menn borgi kannski tvisvar á ári 30.000 kr. í bifreiðagjöld verði sú upphæð lækkuð til samræmis. Þannig myndu útgjöld meðalvegfaranda, sem ekur um 50 veghlið eða eitthvað slíkt, ekki aukast.

En ég tek undir með hv. þingmanni að vissulega getur hann sparað á styttingu ferða sinna og minni eldsneytiskostnaði á sömu leið. Ég tek undir það og sé það líka.